1.mars næstkomandi verður gengin meðmælaganga fyrir trúfrelsi í Laugarneshverfi.
Breytendur á Adrenalíni er hópur ungmenna á aldrinum 14-17 ára sem starfar innan og utan Laugarneskirkju með það að markmiði að breyta heiminum og veit að besta leiðin til þess er að byrja í bakgarðinum heima hjá sér.
Breytendur á Adrenalíni byggja á hugmyndafræði Breytenda á Íslandi (www.changemaker.is) en Breytendur er ungliðahreyfing sem hefur það markmið að gera heiminn að sanngjarnari og réttlátari stað með jákvæðum og raunhæfum aðferðum.
Áhersla Breytenda á Adrenalíni hefur upp á síðkastið verið á trúfrelsi og hefur hópurinn í því samhengi ákveðið að blása til meðmælagöngu.
Umræðan í samfélaginu, bæði hér á landi og á heimsvísu, hefur verið mikil í tengslum við trúarefni og er meðmælagangan tækifæri fyrir okkur öll að koma saman, óháð því hvar við stöndum innan eða utan trúar- og lífsskoðanafélaga og senda skýr skilaboð:
Við megum öll vera allskonar, það er nóg pláss fyrir alla í samfélaginu okkar.
Í aðdraganda göngunnar höfðu Breytendur á Adrenalíni samband við öll þau trú- og lífsskoðanafélög sem hópurinn gat haft upp á og hafa viðbrögðin verið afskaplega góð og margir hópar ákveðið að taka þátt í viðburðinum.
(Sért þú, kæri lesandi, að lesa þessi orð og tilheyrir hópi sem hefur ekki fengið boð um að taka þátt í göngunni og hefðir á því áhuga, endilega hafðu samband með því að senda tölvupóst á hjaltijon@laugarneskirkja.
Gengið verður frá Frú Laugu við Laugalæk sunnudagskvöldið 1.mars kl.19:30 og mun gangan enda í Laugarneskirkju þar sem fulltrúar Ásatrúarfélagsins, Breytenda á Adrenalíni, Félags Múslima á Íslandi, Laugarneskirkju og Siðmenntar munu ávarpa samkomuna.
Þá munu hljómsveitir tónlistarstarfs Laugarneskirkju spila nokkur lög og einnig mun koma fram Eurovision-stjarnan Elín Sif.
Allir hjartanlega velkomnir!
Óháð því hvar við stöndum hvað trúar- og lífsskoðanir varða þá getum við gengið saman!