Ástin sem umbreytir

Kristín Þórunn í hvítum hökli

Um hvað fjalla langflestir textar, hvort sem það er í dægurlögum, klassískum söng eða júróvisjón? Vill einhver giska? Já, það er rétt, þeir fjalla um ástina!

Af hverju skyldi það vera? Skýringin er líklega einföld, nefnlega sú að við viljum öll fá að þiggja, gefa og tjá þessa sterku frumtilfinningu sem við köllum ást, og allar manneskjur eiga sameiginlega.

Ástin er ekki eitthvað sem samtíminn, eða vesturlöndin, eða þau sem eru gagnkynhneigð – eða þau sem eru ung – hafa einkarétt á, heldur er hún einmitt það sem við öll eigum sameiginlegt, hvar sem við erum, hverju sem við trúum, hvað sem við erum gömul, hvort sem við erum ófötluð eða fötluð.

Við heyrum stundum sagt að ástin sé það sterkasta í veröldinni og það er rétt vegna þess að hún er lífsafl sem verndar og nærir. Ástin er líka svona sterk vegna þess að hún virkjar manneskjuna í margar áttir. Það að vera manneskja er svo margvíð upplifun og ástin virkar í öllum víddum. Hún fær okkur til að gera gott og hlúa að öðrum – og hún fær okkur til að sækjast eftir því sem lætur okkur sjálfum líða vel og blómstra og dafna.

Við vitum að þegar lítil börn fæðast, er þeim lífsnauðsynlegt að vera elskuð, það er ekki nóg að þau fái bara næringu og föt og umönnun. Þau þurfa tilfinningalega nærveru og líkamlega ást. Við vitum líka að ástartengslin sem myndast í frumbernsku, þegar við erum svo ung að við munum ekki eftir okkur, móta líf okkar og hvernig við tengjumst öðru fólki alla tíð. Er það ekki magnað?

Lítið dæmi um ástina í dægurlögunum er lagið Do you love me, sem sló í gegn á popplistum vestanhafs árið 1963. Það var hljómsveitin The Contours sem lék og söng. Hljómsveitin endurútgaf lagið árið 1988 fyrir kvikmyndina Dirty Dancing og lagið hitti aftur í mark og náði aftur að virkja heila kynslóð unglinga sem hafa jú mikinn áhuga á ástinni.

Textinn í laginu fjallar um unga manneskju sem leitar að ástinni en hefur ekki haft árangur sem erfiði. Hún hefur orðið fyrir ástarsorg því sá sem hún hafði augastað á endurgalt ekki áhugann. Nú hefur unga manneskjan brugðið undir sig betri fætinum og kemur dansandi inn á sviðið.

Fyrst segir hún þetta, svona til að útskýra stöðuna:

You broke my heart, cause I couldn’t dance
 You didn’t even want me around.
 And now I’m back, to let you know,
I can really shake ‘em down.

Svo spyr hún þrisvar sinnum:

Do you love me? (I can really move)
Do you love me? (I’m in the groove)
Do you love me? (Do you love me)
Now that I can dance
 Watch me now HEY!

Spurningarnar í textanum kallast á við guðspjall þessa sunnudags sem við heyrðum lesið áðan.  Það geymir stutt samtal milli Jesú og Símonar Péturs. Í þrígang spyr Jesús þessarar spurningar:

Elskar þú mig?

Í hvert skipti svarar Símon Pétur:

Já, þú veist að ég elska þig.

Þetta samtal á sér stað alveg í kjölfarið á guðspjallinu sem við heyrðum síðasta sunnudag, þegar Jesús birtist vinum sínum á ströndinni og þeir enda með að borða saman glóðað brauð og grillaðan fisk. Þessi saga er ein af páskasögunum og fjallar um þegar Jesús kemur til vina sinna upprisinn, eftir atburði skírdagsins og föstudagsins langa í Getsemane og á Golgata. Eftir alla þá dramatík og áföll í vinahópnum, birtist senan við Tíberíasvatn þar sem Pétur og Jesús eiga samtalið, sem dýrmæt stund þar sem ástvinir sameinast og eiga enn eina hversdagsstundina í máltíð, spjalli, líkamlegri návist og trúnaði.

Af hverju spyr Jesús þrisvar sinnum hvort Símon Pétur elski hann? Meira að segja Símon Pétur sjálfur finnur að þar býr eitthvað að baki. Honum sárnar að Jesús þurfi að spyrja oft um sama hlutinn, þótt hann fái skýr og einlæg svör. Hann veltir fyrir sér, með okkur sem heyrum þessa sögu í dag, hvort einhver merking liggi að baki þessarar endurtekningar?

Kannski liggur svarið í því að Jesús þurfti eins og við öll, staðfestingu á því að hann sé elskaður. Við þurfum öll ást, viðurkenningu, athygli, trúnað og tryggð. Við þurfum að heyra það frá þeim sem elska okkur, ekki einu sinni heldur oft.

Eða kannski beinir endurtekningin athyglinni á því hvernig við mótumst og breytumst í því hvernig við elskum. Hvernig ástin sem við eigum fær að stækka, breytast og við sjálf um leið.

Það breyttist vissulega allt þegar Jesús reis upp frá dauðum, samband hans við ástvini sína breyttist og samband þeirra við hann breyttist. Þar liggur lykillinn að því hvernig við lesum þetta samtal milli Jesú og Péturs. Það sýnir okkur að allt lífið erum við að breytast og þroskast og trúin er hluti af því.

Sambandið við Guð er líka eitt af því sem breytist og þroskast eftir því sem lífinu vindur fram. Á hverjum tíma þurfum við að svara spurningu Jesú, elskar þú mig? Og á hverjum tíma fáum við að finna hvernig elska Jesú mótar okkur og umbreytir.

Já það breyttist allt við upprisuna. Upprisan er tákn um umbreytinguna sem við göngum í gegnum í lífinu. Þarna er líka hjálplegt að horfa á fiðrildið og það sem það kennir okkur. Breytingin á fiðrildinu er svo róttæk og svo mikil að fiðrildið er sterk prédikun um upprisuna.

Breytingarnar í lífinu eru margvíslegar, sumar til góðs aðrar til erfiðleika. Samtal Jesú og Péturs kemur líka inn á það. Jesús beinir huga Péturs til þess tíma þegar hann verður gamall og aðrir munu leiða hann, þangað sem hann vill ekki fara sjálfur.

Þetta minnir okkur á að lífið ber með sér tíma þegar við erum upp á aðra komin og erum öðrum háð. Það getur verið af völdum sjúkdóma og aldurs – en líka af öðrum ástæðum eins og þegar fólk þarf að búa við stríðsátök eða upplifir hamfarir af náttúrunnar völdum eða efnhagslegum toga.

Flóttafólk hefur t.d.  þurft að yfirgefa heimilin sín, og eru upp á aðra komin, hvort sem það vill það eða ekki. Við heyrum mikið um þennan hóp í dag á Íslandi og erum minnt á að hælisleitendur eru fólk mitt á meðal okkar.

Í öllum aðstæðum lífsins spyr Jesús okkur þess sama og hann spurði Símon Pétur:  Elskar þú mig, spyr Jesús, hann spyr okkur oft og við þurfum alltaf að horfast í augu við okkur sjálf og svara.

Gerum daginn í dag að degi ástarjátningarinnar þegar við segjum, já, þú veist að ég elska þig.