Kranarnir og krossinn

Kría

Þegar ég lít út um gluggann í vinnunni minni og sé alla byggingarkranana, eða finn jörðina og húsið skjálfa þegar klappir og steinar eru sprengdar í byggingarframkvæmdunum sem standa yfir, þyrmir yfir mig því ég sé nýtt hrun. Það er aftur komið 2007.

Þetta sagði kona sem ég hitti í vikunni í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir henni vekja byggingarkranarnir hugrenningatengsl við óreiðuna, ranglætið og óöryggið sem fólk reyndi á eigin skinni í efnahagshruninu á Íslandi. Voldug stálvirki krananna sem ber við himin ýfa upp sársaukann yfir þjóðinni sem hún elskar en hefur ekki megnað að snúa af leið hagsmunagæslunnar, klíkuskaparins, spillingarinnar og umhverfissóðaskaparins. Ekki heldur hefur hún megnað að forgangsraða í þágu aldraðra, öryrkja, axla sameiginlega ábyrgð alþjóðasamfélagsins í málefnum hælisleitenda, eða náttúruverndar.

Allt þetta tákna byggingarkranarnir í huga konunnar. Þeir eru áminning um mistök, brostna drauma, líf sem ekki tókst að varðveita og ljótleika. Þeir eru tákn um þá miklu hagsmuni sem liggja í því að halda fólki veiku, skuldugu og fátæku, eins og Héðinn Unnsteinsson, höfundur bókarinnar Vertu Úlfur, komst að orði í viðtali fyrir nokkrum dögum.

Í dag er dagur krossins sem bar við himin á Golgatahæðinni fyrir utan Jerúsalem. Eins og byggingarkranarnir í miðbæ Reykjavíkur ber krossinn með sér ótal hughrif, viðvaranir, ógnir, dauða og dóm. Krossinn er órjúfanlegur hluti af Jesúsögunni og hann hreyfir við dýpstu vitund og reynslu manneskjunnar í öllum sínum víddum og margslungnu merkingu.

* * *

Hvað þýðir krossinn fyrir þér?

Fyrir samferðafólki Jesú var krossinn tákn valdbeitingar og kúgunar erlends hervalds, ein af aðferðunum sem Róm notaði til að refsa þegnum sem gerðust sekir um lögbrot eða óhlýðni. Hinum fyrstu kristnu stóð líka ógn af krossinum, sem hélt áfram að vera tákn um yfirgang heimsveldisins og lítilsvirðingu fyrir frelsi og mannslífi. Krossinn var ekki þeirra tákn, hann var ekki það sem þau flykktu sér á bakvið og gaf þeim sjálfsmynd. Enda sjáum við krossinn ekki í kristinni myndlist fyrstu aldirnar. Það er fyrst í upphafi fimmtu aldar sem myndir af Jesú á krossinum komi fyrir í trúarlegri listsköpun. Kristið fólk notaði önnur tákn til að tjá trú sína og tilgang, tákn eins og fiskinn, eða upphafsstafi Jesú Krists.

Eftir fimmtu öld og sérstaklega á miðöldum komst krosslistin á flug, og þá varð krossfestingin miðlæg í trúarlegri list í Evrópu. Píslir og þjáning Jesú á leið til krossins og á krossinum urðu ein helsta tjáning kristinnar trúar í listsköpun og guðrækilegri framsetningu. Við sjáum þróun og ólíkar áherslur í myndum af krossfestingunni. Á sumum tímabilum er lögð áhersla á konungstign Jesú, þar sem Jesús virðist sjálfur ósnortinn af því sem hann sjálfur gengur í gegnum – það er ekkert blóð, engin þjáning og engin svipbrigði sem gefa til kynna að hann finni hið minnsta til.

Á öðrum tímabilum er áherslan á þjáninguna sjálfa. Kannski er hvergi gengið lengra í þeim efnum en í altaristöflunni í Isenheim í Alsace, sem Matthías Grünewald málaði í upphafi 16. aldar. Fá listaverk draga upp jafn áhrifamikla mynd af mannlegri þjáningu. Hér kreppisthinn krossfesti og engist í líkamlegum og andlegum sársauka. Pyntaður og limlestur mannslíkaminn verður tákn fyrir Guð sem þjáist með manneskjunni, tákn fyrir Guð sem veit hvað manneskjan þarf að ganga í gegnum í sínum viðkvæmustu og auðsæranlegustu aðstæðum. Enda var Jesús Grünewalds notaður í meðferð sjúkra, sem var komið með í klaustrið til umönnunar. Engin von var um lækningu af hryllilegum plágum sem engu eirðu, en þau sjúku gátu horft til Krists, sem þjáðist og dó – alveg eins og þau sjálf.

Trúin á krossinn sem meðlíðan Krists og samstöðu Guðs með hinum þjáðu átti líka greiðan aðgang að þeim sem upplifðu hrylling heimstyrjalda og þjóðarmorða tuttugustu aldar og þeirra sem fást við hörmulegar afleiðingar nýlendustefnu stórveldanna, fyrir mannlega reisn, jöfnuð og réttlæti í stórum hluta heimsins. Í því samhengi er Jesús á krossinum sá eða sú sem líður og deyr undan þunga heimsveldisins sem í hernaðarhyggju sinni lætur engu valdi óbeitt til að koma böndum á frelsi manneskjunnar til að lifa og elska.

Andspænis slíkri reynslu verða líka spurningar um tilgang eða tilgangsleysi þjáningarinnar og grimmdarinnar sem manneskjan er fær um, áberandi og aðkallandi. Kannski verður krossinn þá bara tákn fyrir slíkt tilgangsleysi, þar sem hin saklausu þjást í óskiljanlegu ofbeldi eins og það birtist í átökum hópa og þjóða og leggur líf í rúst. Ekki bara þeirra sem láta lífið heldur líka þeirra sem lifa af en eru mótuð af ofbeldinu fyrir lífstíð. Myndin af hinni fjögurra ára Adi sem býr í flóttamannabúðum á landamærum Sýrlands og Tyrklands, fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðlana nýlega. Ljósmyndari sem var á ferð í búðunum tók upp myndavélina sína til að taka mynd af Adi. Hún brást við með því að rétta upp hendurnar í ofsahræðslu og uppgjöf því hún tók myndavélinni sem vopni sem yrði beitt til að drepa hana, eins og hún hafði séð gert við fólkið sitt og önnur börn í stríðinu í Sýrlandi.

* * *

Í dag er dagur krossins og við horfum á þau sem þjást saklaus allt í kring um okkur. Við horfum ekki til að njóta heldur vekur þjáning annarra tilfinningar sem eru andstæðar því sem við horfum upp á. Við höfnum valdinu sem brýtur niður manneskjur og ber enga virðingu fyrir lífi og frelsi hennar. Þannig verður krossinn tákn sem snýst í höndunum á valdinu sem hefur beitt honum til að drepa og meiða.

Krossinn getur aldrei staðið fyrir vilja Guðs til þess að einhver þjáist, krossinn getur aldrei verið réttlæting fyrir því að beita valdi. Krossinn á Golgata vísar til kerfis sem heldur manneskjunni niðri í staðinn fyrir að þjóna henni, hann vísar til hagsmuna sem eru varðir með valdi og ofbeldi, til kerfis sem þolir ekki sannleika og reynir því að útrýma þeim sem segir hann. Krossinn vísar til hagsmunanna sem liggja í því að halda fólki veiku, skuldugu og fátæku, halda fólki á jaðrinum og fjarri ákvörðunum sem varða það sjálft og velferð þess.

Gegn öllu þessu barðist Jesús, líf hans var vitnisburður um valdeflingu án ofbeldis, um kærleika án manngreinarálits, um það að sjá fegurðina og reisnina í fólki þrátt fyrir kreppandi aðstæður, hið ytra og hið innra. Líf hans var vitnisburður um það að segja sannleikann þrátt fyrir afleiðingarnar sem það hafði í för með sér fyrir hann sjálfan. Hann kallaði fólk af jaðrinum og inn að miðju lífsins þar sem trúin á kærleikann gerir okkur frjáls.

Þess vegna er krossinn ekki aðeins tákn og staðfesting um staðreynd hins illa og grimmd manneskjunnar í eigin garð og annarra – heldur líka tákn um sigur Guðs yfir hinu illa og því sem vinnur gegn lífinu.

Þess vegna er ekkert pláss fyrir hugmyndir um að Jesús hafi dáið vegna þess að Guð vildi það, vegna þess að Guð krefðist blóðsúthellinga á formi lausnargjalds fyrir ranglæti mannfólksins. Dauði Jesú er vissulega settur í samhengi við synd manneskjunnar, sem er raunveruleg, alveg eins og föstudagurinn langi er staðreynd, en Jesú var ekki fórnað til að friðþægja fyrir þessa synd. Það væri enda í hrópandi andstöðu við allt sem Jesús sagði og gerði, það væri í hrópandi andstöðu við Guð sem skapar, frelsar og elskar heiminn og mannfólkið.

Hvað sérð þú í krossinum?

Í dag er dagur krossins, föstudagurinn langi, sem opnar augu okkar fyrir þeim sem þjást. Og andspænis þjáningu krossins finnum við mennskuna sem tengir okkur hvert öðru, í auðsæranleika okkar og varnarleysi. Við finnum mennskuna sem gerir okkur bæði hæf til fremja óskiljanleg grimmdarverk og elska óhindrað. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á hvert öðru að halda, og við finnum að við þurfum á einhverju sem er stærra og meira en við sjálf að halda. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á Guði að halda.

Útvarpsmessa á föstudeginum langa, 3. apríl 2015.