Saga vonar – Finnland, Sýrland, Ísland

Hjalti Jón Sverrisson

Í bók sinni Gæfuspor talar Gunnar Hersveinn um hamingjuna. Þar gerir rithöfundurinn greinarmun á milli hamingju og gleði, þar sem hann segir gleðina tilfinningalegt ástand, sem líður hjá, á meðan hamingjan er eitthvað varanlegra.Hamingjan verður ekki hrifsuð svo glatt frá manni.
Gunnar Hersveinn skoðar orðið: hamingja er eins og hamur, eitthvað sem maður íklæðist. Hún er eins og góður fituforði, maður sækir næringu í hamingju sína þegar langt líður milli gleðistundanna. Maður getur vissulega verið sorgmæddur, en átt hamingju enn til staðar. Það er nefnilega seigla í hamingjunni. 
Og sú seigla verður til í gegnum þessar litlu hamingjuskapandi stundir; þegar við lesum fyrir börnin okkar rétt áður en þau sofna, þegar við sitjum með kaffibolla í eldhúsinu og eigum þessar fullkomlega hversdagslegu en dýrmætu stundir í spjalli um eitthvað sem við gleymum strax í framhaldinu hvað var. Þegar fegurð náttúrunnar grípur okkar eða þegar við heyrum lagið sem gefur okkur gæsahúð.

Í kringum árið 62 e.Kr. skrifar Páll postuli bréf sitt til Filippímanna, þar sem hann er staddur í Róm, fangelsaður, ofsóttur fyrir trú sína. Þrátt fyrir aðstæður sínar virðist Páll ekki hafa bugast, öðru nær; hann talar um að eiga hamingju í trú sinni, og hvetur fólkið í Filippí: 
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú” (Fil.4:4-7).

Í bréfi Páls talar hann um þakklæti sitt í garð fólksins í Filippí og þann styrk sem hann á í minningunum um samskipti þeirra. 
Kristin kirkja var byggð á minningum fólks, minningum um upplifanir sem gáfu styrk og trú. Minningum um Jesús, kennarann sem talaði um himnaríkið sem væri innra með. Jesús, sem hvatti vini sína til þess að leggja sitt af mörkum til þess að þetta ríki friðar myndi holdgervast hér á jörðu, að innri upplifunin fengi ytri mynd, fengi að birtast í samfélagi okkar mannanna. Hér og nú.

Í ágúst síðastliðnum var ég staddur í Finnlandi ásamt vinum mínum og samstarfsfélögum. Það var laugardagskvöld og okkur hafði verið boðið í bústað nokkurn rétt fyrir utan borgina Tampere. Við reyndum að læra hvað staðurinn heitir nákvæmlega, en finnskan reyndist okkur ansi erfið og nafnið er mér nú gleymt.

Við vorum stödd í Tampere á listahátíð þar sem við höfðum nýlokið við að sýna leikverk og að sýningu lokinni var okkur keyrt í þennan bústað þar sem mikil og góð reyksauna var. Heimamenn útskýrðu fyrir okkur strákunum í hópnum að við fengum að fara fyrstir og að programmið væri einfalt: Fyrst myndum við taka góða stund í saununni og þegar við værum orðnir temmilega sveittir og heitir þá ættum við að rölta niður að stöðuvatni og kæla okkur þar niður. 
Stuttu síðar kom ég að mér ásamt þremur vinum mínum þar sem við vorum flissandi og alsælir syndandi í finnsku stöðuvatni. Litróf tilfinninganna innra með mér minntu mig helst á stundir sem ég hafði átt sem lítill strákur. Þetta var hamingjustund, tær gleði eins og maður les um í skáldsögum. Kvöldið leið og himininn fór frá því að vera sumarbleikur yfir í að vera dökkur en stjörnum stráður. Ég kom að mér í stöðuvatninu á ný og í þetta sinn var ég einn eftir. Ég leið um vatnið og horfði til himins á stjörnurnar sem blikuðu og lýstu upp ekki aðeins stöðuvatnið heldur eins öll þessi tré sem mynduðu hring í kring um vatnið. Þegar stjörnuhrap skaust um himininn óskaði ég mér, rétt eins og ég hafði gert sem lítill strákur, og óskin var einföld: Ég óskaði mér þess að ég myndi ekki gleyma því að ég hefði átt þessa stund, að þessi stund myndi tylla sér í forðabúr hamingju minnar.

Nokkrum vikum síðar lesum við og heyrum fréttir af fólki sem syndir, ekki í stöðuvötnum heldur í hafinu, mitt á meðal þeirra sem megna ekki meira og drukkna. Þetta er fólk á flótta, örvæntingarfullt fólk í leit að skjóli. Í leit að frið.
Þetta eru ekki nýjar fréttir.

Þar sem ég sat heima nú á dögunum og las enn á ný fregnir af fólki frá Sýrlandi, sá enn á ný myndir sem eru svo átakanlegar að maður nánast heyrir í hjartanu bresta, þá fann ég aftur ósk spretta fram, bæn sem var sterkari en sú sem varð til þar sem ég svamlaði um í Finnlandi. Ég vonaði að allt þetta fólk ætti minningar á borð við þá sem ég hafði eignast þetta kvöld í stöðuvatninu skammt frá Tampere. Minningar sem gæfu seiglu, styrk, trú.
Það er auðvelt að fallast hendur og á stundum virðist uppgjöf skynsamlegasta leiðin. Í pistli dagsins, sem er úr bréfi Páls til Filippímanna, talar Páll um að mæta þeim veruleika; að mæta áskoruninni um að vera áfram þátttakandi í lífinu og leggja fram það litla sem maður þó á til.

Páll segir: „Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.” (Fil.1:23-26) 
Páll vildi halda áfram að lifa, hann vildi halda áfram að gefa, halda áfram að vera þátttakandi. Hann vildi vona. Rétt eins og Marta vonar á Jesú og upprisuna í guðspjalli dagsins (Jóh.11:20-27) 
Kristin trú er saga vonar sem lifir áfram í aðstæðum þar sem vonleysi ríkir. 
Það er saga vonar sem við fáum að lifa enn í dag og vera þátttakendur í, fáum að rækta áfram – sama hve vonlaus staðan getur virst. Drottinn er í nánd.

Síðastliðið ár hefur hópur manna ræktað þessa von hér í Laugarneskirkju í starfi fyrir hælisleitendur undir dyggri umsjá prestsins okkar, sr. Kristínar Þórunnar, og sr. Toshiki Toma. Þessir menn hafa með tímanum æ meir litað kirkjulífið hér og þjónað kirkjunni sinni. Kirkjunni okkar. Síðastliðinn föstudag fengu tveir þeirra, Mehdi Pedarsani og Reza Moghadam, synjun frá kærunefnd útlendingamála, sem veitt var á grundvelli Dyflinnarreglunnar, reglu sem hefur sætt gagnrýni árum saman af hálfu fjölda mannréttindasamtaka. Þessi regla leyfir Íslandi að senda úr landi flóttamenn sem sækja hér um hæli án þess að athuga hvort þeir þurfi í raun vernd. Það er hátt ákallið í samfélaginu að hér á landi verði hætt að beita Dyflinnarreglunni á þann hátt sem hefur verið gert, að áherslan í samfélaginu verði að vera sú að hér geti fólk leitað hælis undan ómannúðlegum aðstæðum í heimalandi sínu.

Ég minnist þess þegar kona nokkur sagði fyrir örfáum árum síðan að Ísland væri stórasta land í heimi. Það er því nokkuð merkileg sú tilhneiging sem virðist einkenna stjórnarhætti að hér sé ekki nóg pláss fyrir fólk sem leitar skjóls og vill byggja upp líf sem er ekki markað af stöðugum ótta og ógnum.

Sú áskorun sem mætir okkur er aldagömul; að gefast ekki upp á voninni, að gefast ekki upp á því að vera þátttakendur. Að sýna seiglu okkar. Að berjast með góðu fyrir réttlæti systrum okkar og bræðrum til handa. Að skapa möguleika til hamingju. Að trúa enn orðum Jesú sem hann sagði á fjallinu: „Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.” (Matt.5:6)