Í gærkvöldi steig á stokk í Kaffi Flóru í Laugardal einn af sprotum æskulýðsstarfs Laugarneskirkju, þegar Besta hljómsveit heims II – Neon lék fyrir gesti staðarins.
Hrafnkell Már Einarsson og Hjalti Jón Sverrisson leiða þetta hljómsveitarstarf sem skiptist í tvær deildir, Helíum og Neon – eða Besta hljómsveit í heimi I og II.
Einn tónleikagestur skrifaði á facebook síðu sína eftir tónleikana í gær:
Í hljómsveitunum eru krakkar sem hafa stundað tónlistarnám og búa yfir gríðarmiklum hæfileikum. Þarna fá þau tækifæri til að rækta þá enn frekar í góðu umhverfi, hittast og djamma saman í kirkjunni….Neon steig á svið í gærkvöldi, skipuð fjórum meðlimum ásamt Kela sem hélt utan um bandið og lék á gítar. Krakkarnir eru einfaldlega frábærir, þau leika og syngja afbragðs vel, eru að gera mjög góða hluti og eiga bara eftir að vaxa og þroskast í þessu.
Laugarneskirkja er ekkert smá stolt af þessu starfi og frábæra tónlistarfólkinu okkar.