Sarefta og Sælukot

Kristín Þórunn í hvítum hökli

Í vikunni vakti Rauði krossinn athygli á því að hvert heimili ætti að eiga matvörur sem myndu endast heimilisfólki í allt að þrjá daga, ef þannig ástand skapaðist vegna náttúruhamfara eða annarra aðstæðna, að ekki væri hægt að nálgast mat og vistir með venjulegum hætti. Í því sambandi var rifjað upp að það er ekki lengra síðan en vorið 2010 þegar Eyjafjallajökull gaus að íbúar í Vík í Mýrdal og öðrum stöðum nálægt gossvæðinu, urðu nærri uppiskroppa með nauðsynjar vegna þess að öskufall hindraði eðlilegar samgöngur og vöruflutninga.

Ég er viss um að margir gerðu eins og ég, fóru í mini vörutalningu í búrskúffunni og ísskápnum – og fundu kannski aðallega hálf-átekinn krukkumat, fullt af opnuðum lasagna pökkum (af því maður man aldrei hvort það er til nóg af lasagne plötum þegar maður verslar), grjón og klassísku niðursuðudósirnar sem slæðast af og til með í innkaupakörfuna.

Fyrst og fremst var ég þarna minnt á að ég og mitt heimili, eins og líklega flest heimili í borginni, ganga hreinlega út frá því vísu, að hægt sé að komast í innkaup og hafa aðgang að ferskri vöru hvenær sem er, þegar okkur hentar. Það er lúxus sem við hugsum ekki oft út í hvað eru mikil forréttindi að búa við.

Ég held að það sé erfitt fyrir flest okkar sem hér erum að ímynda okkur hvernig það raunverulega er að geta ekki gengið að því vísu að geta aflað matar á þann þægilega hátt sem við erum vön að búa við. Samt er einmitt það veruleikinn sem Íslendingar áður fyrr bjuggu iðulega við – og ótrúlega margir enn þann dag í dag.

Sagan um Elía spámann og einstæðu móðurina í borginni Sarefta, sem er ein af þessum borgum fyrir botni Miðjarðarhafs, dregur upp mynd af þannig aðstæðum. Konan hefur fyrir sjálfri sér og syni sínum að sjá og þegar hér er komið sögu á hún bara “mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús”. Staðan er þannig að henni fellur eiginlega allur ketill í eld – og hún dregur þá ályktun í samtalinu við manninn sem biður hana um brauðbita með vatninu, að hún og barnið hennar muni einfaldlega deyja af skorti þegar þau hafa neytt síðustu matarleyfanna í húsinu, og hún hafi sannarlega ekkert afgangs þegar kemur að því að deila með öðrum.

Hún er ekki ein þessi kona, sem hefur áhyggjur af því að eiga ekki til hnífs og skeiðar, og geta ekki veitt börnum sínum það sem þau þurfa. En í sögunni um konuna í Sarefta sjáum við stef sem kemur aftur og aftur fyrir í Biblíunni, að það eru hin fátæku og þau sem líða skort sem verða farvegur kærleikans og góðra verka. Af einhverjum ástæðum eru það hin fátæku og jaðarsettu sem Guð velur til að koma skilaboðum áleiðis og kenna öðrum.

Það er líka uppi á teningnum í guðspjallinu þegar Jesús bendir á ekkjuna sem gaf af skorti sínum og sagði að hún hefði gefið meira en auðmennirnir sem gáfu af allsnægtum sínum. Þá munaði ekkert um það sem þeir létu af hendi rakna.

Og aftur segir Jesús eitthvað sem virðist ganga gegn því augljósa: Hvernig getur lítið framlag frá fátækri konu verið meira virði heldur en stóru framlögin frá auðugu mönnunum? Er ekki Jesús að benda okkur á að við eigum að meta fólk út frá aðstæðum þess, og að það sé ekki allt sem sýnist? Hver einasta manneskja á sína sögu, sína reynslu og ber hana ekki endilega utan á sér.

Það reyndir í sífellu á þetta, t.d. þegar við mætum flóttafólki sem kemur hingað til Íslands. Metum við það út frá því hver þau eru sem einstaklingar eða klumpum við þau öll saman í sérstakan hóp án þess að leiða hugann að því að hver og einn er einstakur.

Einstæða móðirin í Sarefta, var líka ekkja eins og konan í guðspjallinu. Sagan um olíukrúsina og mjölkrukkuna kallast svolítið á við söguna af því þegar mannfjöldinn sem hafði safnast saman til að hlusta á Jesú í óbyggðunum stóð uppi matar- og hjálparlaus. Það sem gerðist þá var að þegar neyðin knúði á, kom hjálpin frá litlum dreng sem lagði fram matinn sinn – og kraftaverkið byrjaði að gerast. Nógur matur safnaðist til að allir fengu að borða.

Það er líka magnað að sjá þegar fólk setur í samhjálpargírinn – eins og núna um helgina þegar leikskólinn Sælukot fylltist af fatnaði sem fólk vill gefa og senda til eyjarinnar Lesbos, þangað sem flóttafólk kemur eftir hættulega sjóferð fyrir Miðjarðarhafið. Það stendur uppi allslaust og núna er kominn vetur og það er kalt. Flíkurnar sem söfnuðust í Sælukoti koma sér vel.

Margt smátt gerir nefnilega eitt stórt. Það lærðu fermingarbörnin okkar í vikunni þegar þau gengu í hús og söfnuðu fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Við leggjum baukana hér fram í guðsþjónustunni og biðjum Guð að blessa þessar góðu gjafir svo þær verði til góðs, þökkum fyrir þær og fyrir krakkana sem með þessum hætti lögðu sitt af mörkum til að bæta líf og líðan fólks í Afríku.

Vatnsverkefnið sem gengur út á að byggja brunna svo hreint vatn fáist þar sem áður voru opin vatnsból með öllum þeim vandamálum sem því fylgja, minnir okkur nefnilega á að heimurinn er stærri en litla landið okkar, og að bræður okkar og systur eru víða. Þau koma okkur við. Það er líka þess vegna sem við stundum kristniboð, förum með góðu fréttirnar út um heiminn og boðum kærleiksboðskapinn með orðum og verkum. Í dag er reyndar kristniboðsdagurinn og af því tilefni eru gefin dagatöl með yndislegum myndum þaðan sem Íslendingar hafa starfað.

Óttastu ekki, sagði Elía við einstæðu mömmuna sem hafði svo miklar áhyggjur af því að eiga ekki mat fyrir barnið sitt. Farðu og gerðu það sem þú sagðir. Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna fyrr en Drottinn lætur rigna á jörðina.

Í erfiðleikunum sem lífið býður okkur uppá skipta svona hlutir máli. Það skiptir máli að vera sjálfur með forða, hvort sem það eru þriggja daga matarbirgðir á heimilinu, eða kærleiksforða í hjartanu, þegar áföllin ríða yfir. Það skiptir máli að taka höndum saman, vera samfélag sem virkjar samtakamáttinn og setja í gír þegar þarf að hjálpast að. Og það skiptir máli að lifa ekki í ótta heldur kærleika – og trú á að þitt framlag skiptir máli og að þú skiptir máli.

Hér eru textar dagsins, lexían úr Gamla testamentinu og guðspjallið úr Nýja testamentinu.

Þá kom orð Drottins til Elía:
„Búðu þig og farðu til Sarefta sem er rétt hjá Sídon og sestu þar að. Ég hef falið ekkju nokkurri, sem þar býr, að fæða þig.“
Elía bjóst til ferðar og hélt af stað til Sarefta. Þegar hann kom að borgarhliðinu var þar ekkja nokkur að tína saman sprek. Hann kallaði til hennar og sagði: „Færðu mér vatnssopa í krús að drekka.“ Þegar hún fór að sækja vatnið kallaði hann til hennar: „Færðu mér brauðbita um leið.“ En hún svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn lifir á ég ekkert brauð. Ég á aðeins mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús. Ég er að tína saman nokkur sprek, síðan ætla ég heim að matreiða þetta handa mér og syni mínum. Þegar við höfum matast getum við dáið.“ Elía sagði við hana: „Óttastu ekki. Farðu heim og gerðu það sem þú sagðir. En bakaðu fyrst lítið brauð og færðu mér, síðan skaltu matreiða handa þér og syni þínum. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna fyrr en Drottinn lætur rigna á jörðina.“ Ekkjan fór og gerði eins og Elía hafði sagt. Höfðu hún, Elía og sonur hennar, öll nóg að borða um langa hríð. Mjölkrukkan tæmdist ekki og ekki þraut olíu í krúsinni. Það var í samræmi við orð Drottins sem hann hafði flutt af munni Elía.

1Kon 17.8-16

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“

Mrk 12.41-44