Frábært tilboð

Kría

Ég er að lesa yndislega bók, stutta og laggóða, eftir mann sem heitir Stephen Cottrell. Hann er biskup á Englandi á stað sem heitir Chelmsford. Hann byrjar bókina með þessum orðum: Það hlýtur að vera hægt að halda jólin öðruvísi en við gerum núna, að halda þau þannig að gleðin og fyrirheitin sem þau standa fyrir hjálpi til við að gera lífið okkar heilt aftur.

Bókin heitir “Ekki gera neitt” – jólin eru að koma” og inniheldur nokkurs konar aðventudagatal sem lætur okkur hugsa öðruvísi um dagana fyrir jól heldur en við erum kannski vön. Inntakið er fyrst og fremst, staldraðu við, hættu að eyða um efni fram, vertu heiðarleg um það sem þig vantar í lífið þitt svo það verði heilt.

Sannleikurinn er að þetta er erfiður tími á margan hátt. Við sitjum uppi með minningar og sorg, væntingar okkar sjálfra og þeirra sem eru í ífi okkar og við finnum þrýstinginn sem er á okkur öllum um að uppfylla þessar væntingar með ákveðnum hætti, sem er ekki alltaf hjálplegur og styðjandi.

Svo margt í umhverfi jólanna leggur þunga á fólk og áskorunin okkar er að snúa því okkur sjálfum í hag, snúa því mennskunni í hag, því viðkvæma, brothætta og dýrmæta í hag. Því undir öllu dótinu, hávaðanum, kapphlaupunum, neyslunni, er litla barnið í okkur sjálfum, barnið sem jólin snúast um, barnið í Betlehem sem táknar og tjáir kærleikann sjálfan, kærleika Guðs til mannanna, kærleikann sem þú átt skuldlausan og alveg skilið. Um þetta snúast jólin.

Mér finnst að veðurbreytingin í síðustu viku sem færði okkur veturinn með fullum þunga í upphafi aðventu hafi komið með sannfærandi taktbreytingu vegna þess að snjórinn neyðir okkur einhvern veginn til þess að skipta sjálf um gír. Og það er ekki amalegt að hefja aðventuna eins og í miðju jólakorti – allt hvítt og mjúkt, snjórinn dempir hljóð og hraða, hægir á umferðinni, breytir loftinu sem við öndum að okkur, breytir birtunni sem við skynjum og einhvern vegninn breiðir yfir allt þetta gráa og skítuga sem klessist við allt og alla og er svo erfitt að losna við.

Snjórinn tekur okkur inn í tilfinninguna sem er svo eftirsóknarverð, að við séum í hreinu og saklausu umhverfi og ástandi. Nýfallin mjöll tjáir það ólifaða og óreynda, þegar hún liggur óhreyfð yfir jörð og mannvirkjum. Snjórinn táknar einhvernveginn nýtt upphaf og upprunaástand sem við tökum öll til okkar.

Það er auðvitað ekki bara rómantískar og jákvæðar upplifanir sem fylgja því þegar allt fer á kaf í snjó. Þau sem raunverulega eru háð því að komast á milli staða í borginni, ég tala nú ekki um á milli landshluta þurfa að setja sig í allt annan takt og jafnvel sætta sig við að þurfa að bíða eftir því að veður lægi, það verði rutt, það verði hreinlega fært á milli staða.

Á einhverju tímabili var ég t.d. nokkrum sinnum í þeirri stöðu að vera fljúga svolítið út á land – og eins og allir vita sem hafa tekið flugið með “Flugfélagi Íslands” þá er ansi oft uppi á teningnum sú staða að flugi seinkar, það er þoka eða rok eða eitthvað, það kemur nýr tími á skjáinn, það kemur nýr tími um hvenær nýr tími sé væntanlegur á skjáinn – og það EINA sem þú getur gert er að bíða. Það er ekkert sem þú getur gert til að flýta fyrir eða til að hafa áhrif á tímann. Það er í sjálfu sér mjög dýrmæt lexía fyrir konur, sem með fullri virðingu eru margar þannig að við þurfum að hafa hverja mínútu upptekna og fullhlaðna af einhverju skynsömu að gera og til að flýta fyrir…

Það að vera veðurteppt er í raun dýrmæt reynsla því hún neyðir okkur stressaða nútímafólk til að bíða – og bíða á meðvitaðan hátt eftir einhverju sem okkur finnst eftirsóknarvert. Og þarna er tengingin við aðventuna komin. Aðventan snýst um að bíða. Og þótt við séum mjög dugleg að fylla aðventuna af aktíviteti, sumu mjög skemmtilegu og mikilvægu, þá er það kjaranaatriði við aðventuna að hún er tími eftirvæntingarinnar, tíminn sem við bíðum eftir því sem er gott og mikilvægt og merkilegt.

Aðventan er magnaður tími. Hún lýkur upp mörgum stefjum sem kristin trúarhefð leggur okkur á hjarta í aðdraganda jólanna. Eitt af þessum stefjum aðventunnar er vonin sem í kristinni trúar er ætluð öllum en ekki fáum útvöldum. Boðskapur aðventu og jóla um frið á jörðu og velþóknun Guðs gengur út á þetta og beinist sérstaklega að þeim sem eru jaðarsett. Þau eru í frásögum og textum Biblíunnar sérstakur farvegur vonarinnar sem ætluð er öllu mannkyninu. Hugsum bara til Maríu, móður Jesú, þessi unga ógifta stúlka sem fær það mikilvæga hlutverk að ganga með og eignast frelsara heimsins. Og þjóðin hennar var ekki heldur í góðum málum, hersetin og undirokuð af rómverska heimsveldinu sem fór sínu fram hvar sem var.

Og aðstæðurnar þegar Jesú fæðist voru auðvitað ekki upp á marga fiska, eða hvað. Fólk á flótta er daglega í fréttum, fólk sem flýr heimili sín vegna stríðsátaka, ofsókna, náttúruhamfara eða efnahagsástands, og leitar verndar og hælis á svæðu sem eru öruggari en heimili þeirra. María og Jósef voru auðvitað í þessum sporum, fyrst er þeim gert að yfirgefa heimilið sitt í Nasaret og halda af stað til Betlehem af því að keisaranum datt í hug að fara að halda skrá yfir íbúa landsins, svo hægt væri að heimta af þeim skatt. Og við munum mæta vel að þegar þau komu til Betlehem var ekkert pláss fyrir þau – þess vegna fengu þau skjól í gripahúsi og reifabarnið var lagt í jötu.

Og í framhaldinu þegar Jesúbarnið er fætt og Heródes konungur sækist eftir lífi þess í trylltri vænissýki flýja þau til Egyptalands og leita skjóls undan ofsóknum hans. Þetta kallast sannarlega á við hælisleitendur dagsins sem við sjáum hætta öllu fyrir sig og börnin sín í örvæntingarfullri leit að öryggi.

Í samtímanum er mikil eftirspurn og þrá eftir von. Og það er að verða vakning í þá átt að allt mannkynið eigi rétt á því að eiga von um líf og eiga von um gott líf. Við sjáum það t.d. í aukinni meðvitund um hvernig lífsstíll okkar hefur áhrif á líf fólks hinu megin á hnettinum. Loftslagsmál snúast um von og að mannkynið fái allt að eiga von um líf og gott líf. Það er þessi meðvitund sem gerir það að verkum að það skiptir okkur hér á Íslandi máli ef loftslagsbreytingar sem hljotast m.a. af lífstíl okkar, skapa ólífvænleg skilyrði fyrir íbúa Suðurhafseyja.

Já þetta eru m.a. þemun sem aðventan leggur okkur á hjarta. Hún er þess vegna mikilvægt innlegg í samtalið um manneskjur, merkingu og mátt í aðdraganda jólanna. Aðventan er tilboð til okkar um að setja fingurinn á skilaboð kristinnar trúar inn í aðstæður og reynslu manneskjunnar hér og nú. Og aðstæður og reynsla manneskjunnar eru einmitt viðfangsefni kristinnar trúar, og kristin trú nálgast manneskjuna af raunsæi og nánd. Við þurfum að lyfta því upp að aðventan snýst svo sannarlega ekki um fínpússaða tilveru og fullkomin matarboð – heldur lífið í margbreytileika sínum, eins óvæginn og óvæntur hann getur verið.

Aðventan er tilboð um að horfast í augu við lífið og okkur sjálf án þess að detta í fordóma um okkur sjálf og hvernig við eigum að vera. Notum aðventuna til þess að elska okkur sjálf, en ekki dæma okkur endalaust fyrir að vera ekki nógu góð, dugleg, falleg, skilningsrík, elskandi. Látum aðventuna snúast um kærleika en ekki kitsch, samhjálp en ekki samkeppni, innihald en ekki umbúðir. Þetta eru góð íhugunarefni á meðan við bíðum eftir því að komast á áfangastað og allt er snjóað í kaf.