Dagur minninga, dagur vonar

Það er dagur minninga og vonar. Það sem við iðkum þegar við komum saman í kirkjunni í dag, er í minningu þess sem Jesús gerði, og í von um að við verðum hluti af lífinu með honum. Við minnumst þess sem Jesús sagði um samfélag þeirra sem elska hann og við minnumst þess sem hann gerði til að sýna hvað einkennir það samfélag. Við sækjum styrk í þessa minningu og notum hana til að knýja ástina, gleðina og frelsið í okkar eigin lífi svo við getum haldið áfram.

Páskahátíðin sem Jesús hélt með vinum sínum, síðasta kvöldið sem hann lifði, var líka stund minninga og vona. Sú hátíð átti rætur sínar að rekja til þess þegar Ísraelsþjóð losnaði úr þrældómi undir veldi Faraós í Egyptalandi. Sagan um Móse og plágurnar tíu tengjast því hvernig þjóðin fékk loks að fara því Faraó lét loks undan og leyfði brottförina.

Síðasta plágan var sú skelfilegasta. Þá gekk engill dauðans um og laust hvern frumborinn egypskan svein. Til að engillinn vissi hvaða hús ætti ekki að heimsækja og til að forða Ísraelsmönnum frá plágunni var þeim boðið að dýfa ísópsgrein í blóð nýslátraðs lambs og merkja með því dyrastafi húsa sinna. Þá fór engillinn fram hjá án þess að stoppa. Og Faraó sleppti takinu.

Í þessa sögu vísar heiti páskahátíðar gyðinga, og á henni byggjast siðir hennar, þegar gyðingar halda sinn Seder enn í dag. Og þetta var ramminn utan um síðustu kvöldmáltíðina sem Jesús átti með lærisveinum sínum. Brauðið var brotið til minningar um það að í þrældómnum höfðu menn aðeins mola að eta en aldrei heilt brauð. Beiskar jurtir voru lagðar milli tveggja ósýrðra brauða og táknaði beiskju þrældómsins og brauðið sem fólk þurfti að leggja sér til munns í flóttanum. Þessu brauði var svo dýft í mauk sem búið er til úr döðlum, eplum, hnetum og granateplum, til að minna á leirinn sem forfeðurnir þurftu að hræra til múrsteinsgerðar í þrældómnum.

Aðalréttur páskamáltíðarinnar var svo auðvitað páskalambið sjálft, í minningu lambsins sem var slátrað til að forðast dauðapláguna í Egyptalandi. Svo var dreypt á víni fjórum sinnum í máltíðinni til minningar um fjögur fyrirheit Guðs um lausn úr þrældómi og staðfestingu þess að Ísrael var hin útvalda þjóð.

En þetta kvöld, þegar Jesús hefur þvegið fætur lærisveina sinna og sest til máltíðarinnar, fá þessi tákn nýtt innihald. Í anda hefðarinnar hefur hann sem leiddi máltíðina hafið hana með orðunum Blessaður sért þú Drottinn Guð sem hefur gefið okkur lögmálið og látið brauðið vaxa af jörðinni. En svo leggur hann sig sjálfan í atburðarrásina og gefur máltíðinni alveg nýja merkingu. Brauðið sem við brjótum er ekki lengur tákn um brottförina úr Egyptalandi heldur er þetta líkami minn sem fyrir yður er gefinn: héðan af skuluð þið brjóta brauðið í minningu um mig og það sem ég gerði.

Og þegar hann lyfti bikarnum sagði hann: þessi kaleikur sem við drekkum nú af saman er ekki bara minning og tákn um sáttmálann sem Guð gerði við forfeður okkar á Sínaífjalli, heldur tákn nýs sáttmála í mínu blóði. Drekkið af honum í mína minningu. Með því að borða þetta brauð og drekka af þessum kaleik verðið þið þátttakendur í lífi mínu, dauða og upprisu. Með því að brjóta brauðið og drekka vínið gangið þið úr þrældómi og helsi yfir í líf og frelsi.

Þessi tiltekna máltíð varð þannig að fyrstu kristnu guðsþjónustunni og í samfélagi þeirra sem fylgdu málstað Jesú frá Nazaret varð máltíðin sem vísaði í líf og dauða Jesú tákn og staðfesting um alveg nýjan veruleika.

Jesús sjálfur sló tóninn fyrir þennan nýja veruleika í aðdraganda máltíðarinnar sjálfrar, þegar hann tekur að sér hlutverkið að þjóna þeim sem eru komnir til hennar. Fótaþvotturinn sýnir fordæmi og fyrirmynd sem á sér samhljóm í orðum og ræðum Jesú allt hans líf – sá sem vill vera mestur þjóni! Hlutverk þess sem vill fylgja Jesú og boðskap hans er að þjóna öðrum, vera ekki hræddur að taka að sér verk sem krefjast snertingar við hið jarðneska og forgengilega, eða neyðina og þörfina, hvar sem hún birtist.

Neyðin er víða. Þessa vikuna erum við enn einu sinni óþyrmilega minnt á ofbeldið og eyðilegginguna sem mætir okkur í jafn hversdagslegum aðstæðum og ferðalögum og samgöngum, í landi sem við eigum mikil samskipti við og er ótrúlega nálægt okkur. En ofbeldið nær víðar, Tyrkland, Yemen, Rússland, Pakistan, Afganistan eru líka vettvangur hryðjuverkaárása á saklaust fólk, þótt það fái ekki eins mikla athygli í okkar heimshluta og eins sterk viðbrögð og árásirnar í Belgíu og Frakklandi.

Ein af gleymdu styrjöldunum í heiminum eru átökin sem stóðu yfir áratugum saman í Kólombíu, milli FARC skæruliða og ýmissa herdeilda tengdum stjórninni. Margir karlar konur og börn féllu í því stríði sem hafði ekkert með trúarbrögð að gera en allt að gera með pólitík og hagsmuni yfirráða í landinu.

Í maí 2002 voru íbúar lítils þorps í Kolumbíu sem heitir Bojayá í sjálfheldu stríðandi fylkinga skæruliða og hermanna stjórnvalda. Fjöldi fólks leitaði skjóls í kirkjunni í þorpinu þar sem þau báðu saman, hlúðu að hvort öðru og vonuðu það besta. 

Í þessum bardögum voru mikið notaðar svokallaðar pípetur sem eru einhversskonar gassprengjur . Ein þeirra lenti á kirkjunni, fór gegnum þakið og sprakk á altarinu. Sprengingin drap meira en 100 þorpsbúa, flestir voru börn. Margir fleiri særðust. 

Þessi ögurstund gleymist auðvitað aldrei í minni þorpsins og þau sem lifðu vinna ennþá úr atburðinum í sorg og söknuði eftir þeim sem þau misstu.

Í kirkjunni sem varð fyrir árás hékk á kórveggnum stór og mikill keramikkross sem skemmdist í sprengingunni. Eftir árásina er þar Kristur án arma og leggja. Hann hefur upp frá því verið kallaður Kristur frá Bojayá.

Þessi limlesti Kristur, Kristur frá Bojayá er ennþá í kirkjunni. Hann stendur sem minning og áþreifanlegt tákn áfallsins og eyðileggingarinnar sem reið yfir og ekkert getur tekið til baka. Hann minnir á að slíkur hryllingur megi ekki endurtaka sig og að manneskjan er viðkvæm og auðsæranleg.

Kristur frá Bojayá minnir okkur líka á Jesús er mitt á meðal þeirra sem þjást, þeirra sem missa limi í sprengjuárás, þeirra sem blæðir til ólífis.

Skírdagur er dagur minninga og vonar. Minningarnar skilgreina hver við erum og vísa þannig fram á veg. Þegar við komum saman við borðið, brjótum brauðið og blessum bikarinn skilgreinum við okkur upp á nýtt í hvert sinn. Þá verðum við hluti af líkama Krists, og eignumst hlutdeild í kærleikanum sem fellur aldrei úr gildi. Í því felst von okkar og geta til að horfa fram á veginn og taka því sem að höndum ber.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.