Samfélag & þakklæti – 5.pistill: Sigurbjörn Þorkelsson

Stöndum saman

Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Til þess að okkur farnist vel á ævigöngunni er skilningur, samstaða og samhjálp svo mikilvægir þættir.

   Litróf mannlegrar tilveru fær sín ekki notið nema allir litirnir komi fram og fái að njóta sín. Hver með sínu hætti. Tilveran verður þá fyrst ásættanleg þegar daufu litirnir taka að styðja við þá sterkari og hinir sterkari við þá daufari. Væri tilveran annars ekki daufleg og fátækleg ef allt væri bara litlaust eða svart og hvítt?  

Trén í skóginum

Í skóginum leynast nefnilega margvísleg tré, stór og smá. Ólíkar tegundir með misjafnt vaxtarlag og fjölbreyttum greinum. Öll eru þau þó sprottin úr sama jarðveginum. Sum blómgast vel, eru tignarleg, berast á, halda lífi og bera mikinn og góðan ávöxt. Á meðan önnur ná sér aldrei alveg almennilega á strik, hrörna fljótt, visna og deyja. Ástæðuna þekkjum við ekki.


   Varla er við trén sjálf að sakast? Ástæðan er ráðgáta sem okkur er ekki gefið að skilja né útskýra með nokkru móti, þótt við sannarlega vildum. Við setjum okkur í stellingar, gerumst spekingsleg, höldum ráðstefnur og teljum okkur á stundum færast nær svarinu.

Sem blaktandi strá


Við erum líkt og greinar trjánna. Einungis sem blaktandi strá, sem reyna að laufgast, ná áttum og sanna okkur í lífsins stormi og ölduróti. En okkur tekst það ekki alltaf og kannski því miður sjaldnast þrátt fyrir einlægar tilraunir og einbeittan vilja.

   Hvernig sem allt velkist í henni veröld, okkur gengur og líður hverju sinni munum þá bara að dæma ekki trén í skóginum. Þau eru bara eins og þau eru. Þau þarf að rækta og að þeim að hlúa. Þau þarfnast umhyggju eins og við. Að á þau sé hlustað og mið tekið af þörfum þeirra. Þau þurfa að læra að lifa saman, vera vinir og standa saman, þótt ólík séu.

Þurfum hvert á öðru að halda


Trén í skóginum þurfa hvert á öðru að halda til að komast af og líða vel og til að mynda skjólgóðan skóg sem ver fyrir óþægilegu og óæskilegu áreiti.

   Tölum því saman þótt ólík séum og ósammála um margt. Við erum nefnilega öll á sömu leið með svipaðar þarfir og þurfum hvert á öðru að halda. Verum jákvæð og uppbyggjandi, uppörvandi og hvetjandi. Leitumst við að lifa í friði og sátt og laða það besta fram í eigin fari og þeirra sem á vegi okkar verða og við eigum samskipti við á ævinnar göngu á leiðinni heim.

   Ræktum garðinn okkar og njótum þess að ganga um hann og vera í honum, saman.

Látum lífið ekki kafna í illgresi

   Góður Guð vill fá að planta blessun sinni í garðinn þinn. Hann þráir að fá að sjá hana þroskast þar. Vaxa upp og dafna, springa út og njóta sín. Hugsaðu því um garðinn þinn og haltu honum við. Vökvaðu hann reglulega svo hann skrælni ekki. Og mundu fyrir alla muni eftir því að reyta arfann. Hlúum að lífinu svo það fái sprungið út og notið sín og borið þann ávöxt sem því var og er ætlað.

Látum blessunina og lífið sjálft ekki kafna í illgresi vegna hirðuleysis. Gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að friður, sanngirni og réttlæti fái sprottið í garðinum okkar sem ilmandi blóm og verði að angan sem smýgur og fyllir loftið af kærleika.

Með hjartans friðar- og kærleikskveðju.

Sigurbjörn Þorkelsson

   Lifi lífið!