Samfélag & þakklæti – 6.pistill: Unnur Brynja Guðmundsdóttir

Þakklæti – gleði

Haustið 1994 byrjaði ég í kirkjukór Laugarneskirkju einungins 23 ára. Það var fyrir tilstilli Stjúpu minnar sem vissi að ég gæti sungið og einnig var ég nýbúin að missa mömmu mína úr krabbameini. Því taldi ég gott að kynnast Jesú í lífi og söng. Þrátt fyrir ungan aldur fann ég mig á þessum góða stað, Laugarneskirkju, hlýja, kærleikur og velvild fylgdu með og árin urðu fleiri og fleiri.

Ég var ekki búin að vera lengi í kirkjukórnum er ég fór í sóknarnefnd og var í þeim störfum í nokkur ár og óhætt að segja að það var  þroskandi og gefandi starf. Þá kemur upp í huga minn dæmi um það er ég ung kona á þrítugsaldri sat á skrifstofu bankastjórans til að biðja um lán til að smíða nýtt orgel fyrir kirkjuna okkar. Sem allt gekk eftir og var vígt við stórkostlega athöfn í desember 2002. 

Á sóknarnefndarárum mínum var ég barnshafandi og kom dóttir mín með mér á marga fundi, æfingar og messur og fékk hún viðurnefnið sóknarbarnið. Árið 2016 flutti ég í annað sveitarfélag en gat ekki hugsað mér að hætta í kórnum og hélt áfram. Árið 2017 byrjaði ég svo í kirkjukórnum í mínu sveitarfélagi en treysti mér samt ekki að hætta í Laugarnesinu en eftir þennan vetur ákvað ég að klippa á naflastrenginn. En það var sumarið 2019 á 70 ára afmælisári kirkjunnar að ég söng að lokum með kórnum og ég réði ekki við við tárin þegar ég ég kvaddi, en það voru þakklætis og gleðitár sem hrundu, fyrir þessi 25 góðu ár í Laugarneskirku.

Texti sálms númer 22 eftir Sigurbjörn Einarson kemur upp í huga minn  þegar ég hugsa til baka í starfi mínu við kirkjuna.

Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu,

miskunn þín nær en geisli á kinn.

Eins og vér finnum andvara morguns,

eins skynjar hjartað kærleik þinn.

Í dagsins iðu, götunnar glaumi,

greinum vér þig með ljós þitt og frið.

Hvar sem ein bæn er beðin í hljóði,

beygir þú kné við mannsins hlið.

Hvar sem er unnið, hugur þinn starfar,

hús vor og tæki eru þín verk.

Þú vilt vér teljum vort það, sem gefur

viskan þín rík og höndin sterk.

Djúp er þín lind, sem lífgar og nærir,

lófinn þinn stór, vort eilífa hlé.

Gjör þú oss, Kristur, Guðs sonur góði,

greinar á þínu lífsins tré.

(Sigurbjörn Einarsson)

Unnur Brynja Guðmundsdóttir.