Samfélag & þakklæti: 9.pistill – Eva Björk Valdimarsdóttir

Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.

Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“

Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“ (Lúkasarguðspjall 12. 25-37)

Við erum sannarlega að upplifa dæmafáa og ógnvekjandi tíma. Við fáum daglega fréttir af kórónaveirunni, veikindum og andláti, lokun landamæra, uppsögnum og áhyggjum af efnahag. Það er eðlilegt að vera óttaslegin í þessum aðstæðu, ótti er hjálplegt viðbragð við hættu. Hann hjálpar okkur að forðast hættur og að fara varlega. En það er ekki gott að lifa við stanslausan ótta. Við getum farið varlega en um leið hleyp öðrum tilfinningum að, tilfinningum eins og samúð og þakklæti. Það er svo ótal margt sem við getum verið þakklát fyrir.

Við heyrum líka fregnir af ótrúlegri þrautsegju fólks, ósérhlýfni og kærleika. Mér dettur í hug kínversku sérfræðingarnir sem fóru til Ítalíu til þess að miðla af reynslu sinni og þekkingu til heilbrigðisyfirvalda þar. Þegar ástandið í þeirra heimalandi var að lagast og þeir gátu loks gengið frjálsir um göturnar þá fóru þeir þangað sem hættan var mest.

Sagan af miskunssama Samverjanum er saga af manni sem slasast á einum hættulegasta vegi sem hægt var að fara. Veginum frá Jerúsalem til Jeríkó. Um þessar mundir er miskunssami Samverjinn víða og líka þessi hættulegi vegur. Í sögunni eru tveir menn sem svegja framhjá. En það er af því að þeir vinna í musterinu og þurfa samkvæmt reglum þess að gæta að hreinlæti. Þess vegna svegja þeir framhjá. Maðurinn sem stoppar og hjálpar er útlendingur í landinu og utangáttar, hann er sá sem hjálpar. Ég held að á þeim tímum sem við lifum núna getum við fundið okkur í sporum allra þessara manna. Við getum skilið þá alla, fundið til samúðar með þeim öllum. Við getum sett okkur í spor mannsins sem er slasaður á hættulegum stað og er óttaslegin, þeirra sem gengu framhjá af því að þeir höfðu öðru hlutverki að gegna, þeim hefur ekki liðið vel og mannsins sem hjálpaði sem tók að sér mikilvægt kærleiksverk. En við skulum þakka fyrir það að miskunssami samverjinn er víða. Munum líka að dæma ekki fyrirfram, við vitum aldrei úr hvaða átt miskunarverkið kemur, hver reynist náungi í raun.

Á tímum óvissu í heiminum þurfum við tákn einingar og vonar.

Faðir vorið er bæn sem er sameiginleg öllu kristnu fólki. Það er sama hvaða kirkjudeild við tilheyrum og hvar í heiminum við búum eða á hvað tíma við erum uppi. Öll þekkjum við bænina sem Kristur kenndi. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að sameinast sem eitt mannkyn, bæði til að berjast gegn þessum heimsfaraldri og til þess að draga lærdóm af honum.

Frans páfi hefur sent kirknaráði Evrópu og kirkjudeildum heims boð um það að sameinast í bæn í dag miðvikudaginn 25. mars klukkan 12. Við skulum gera það, biðjum saman á hádegi í dag faðir vor með fólki um allan heim.

Faðir vor, þú, sem ert á himnum. 
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, 
verði þinn vilji
svo á jörðu sem á himni. 
Gef oss í dag vort daglegt brauð. 
Og fyrirgef oss vorar skuldir 
svo sem vér og fyrirgefum 
vorum skuldunautum. 
Eigi leið þú oss í freistni, 
heldur frelsa oss frá illu. 
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.
Amen.

Lifandi guð leiði þig og blessi í dag og alla daga.

Eva Björk Valdimarsdóttir