Feðraveldið á konudegi

by Feb 23, 2014Blogg

Á konudegi voru í Laugarneskirkju sungnir sálmar eftir konur og notað messuform sem byggir á fyrirmynd kvennakirkjunnar. Dr. Auður Styrkársdóttir flutti í messunni magnaða prédikun sem ber yfirskriftina Feðraveldið á konudegi og má lesa hér að neðan. Gleðilegan konudag.

Kæru messugestir.

Í dag hefði faðir minn orðið 87 ára gamall hefði hann lifað. Hann dó fyrir 24 árum, og var þá jafngamall mér. Þetta var enginn aldur til að deyja, mér finnst ég ennþá vera ung manneskja. Ég sakna hans enn á hverjum degi. Það er svo margt sem ég hefði viljað ræða við hann en fæ aldrei tækifæri til.

Í dag er líka hinn íslenski Konudagur. Fyrsti dagur hins gamla Góumánaðar, og veðrið þennan dag er talið segja fyrir um sumarveðrið. Ef veður er vont verður sumarið gott, og öfugt. Við skulum vona að spáin rætist ekki í þetta sinn! Sá siður er líklegast um það bil jafn gamall mér að karlmenn færi konum sínum blóm á þessum degi – og það man ég að faðir minn gerði. Kannski eyðsluhvetjandi siður, en fallegur getur hann verið.

Bakarameistarar auglýsa nú köku ársins: hún er sögð með ljúffengri karamellumús og ópal ganash – hvað svo sem það nú þýðir. Vonandi smakkast það vel. Ég vissi ekki að þetta er í fyrsta sinn sem kona bakar köku ársins. Það var viðtal við konuna sem bakaði, ungan bakaranema, og þar lýsti hún því meðal annars að bakaraiðnin væri hið mesta karlafag; þar væru menn innandyra sem efuðust um að konur ættu þar eitthvert erindi. Hugsið ykkur, árið 2014.

Konudagur. Það er ástæða til að gleðjast. En er ekki líka ástæða til að nota daginn til þess að skoða stöðu kvenna, bæði hér heima og erlendis? Þá blasir dálítið döpur mynd við.
Vissir þú til dæmis þetta:

  • yfir 600 milljónir kvenna og stúlkna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert
  • ofbeldi dregur jafnmargar konur til dauða og krabbamein á hverju ári
  • um allan heim fá konur lægri laun en karlar
  • 70% þeirra sem búa við sára fátækt eru konur. Samt bera þær nánast alltaf ábyrgðina á því að gefa börnum sínum að borða.

Já það er víða pottur brotinn í réttindamálum kvenna.

Það er stundum talað um karlaveldið og feðraveldið. Það þýðir í stuttu máli að allar þær konur sem ég nefndi hér að ofan kjósa ekki örlög sín sjálfar. Þær eru ofurseldar valdi annarra, í lang, lang flestum tilvikum valdi karlmanna, valdi feðranna. Það eru þeir sem hafa völdin –  það eru þeir sem ráða hvernig málum er háttað og hvernig heimurinn er. Og sá heimur sem mörgum stúlkubörnum er gert að alast upp í tekur þeim því miður ekki fagnandi.

John Stuart Mill hét enskur heimspekingur og siðfræðingur sem uppi var á 19. öld. Hann skrifaði mikið um frelsið, og hann er talinn upphafsmaður frjálshyggjunnar svokölluðu, þeirra gömlu. En hann skrifaði líka um feðraveldið í bók sem hlaut nafnið Kúgun kvenna í íslenskri þýðingu. Þar lýsir hann feðraveldinu og þeim skorðum sem það setur konum. En hann lýsir líka þeim sálrænu áhrifum sem þetta fyrirkomulag hefur á konur, en ekki síður á karla. Og það eru forvitnilegar lýsingar: „Ímynda menn sér að allt þetta gerspilli eigi karlmanninum að öllu leyti bæði sem einstakling og borgara?“ spyr hann. Og hann segir líka: „Það fer ekki hjá því að menn verði þóttafullir þegar þeir frá bernsku hafa á hendi forréttindi sem þeir hafa eigi unnið til.“

Það er ástæða til að hvetja karlmenn til þess að ígrunda vel þessi gömlu orð kynbróður síns.

Ég átti þess kost að sitja alþjóðlega ráðstefnu í Osló síðastliðinn nóvember. Tilefnið var 100 ára afmæli kosningaréttar norskra kvenna sem haldið var hátíðlegt allt síðasta ár í Noregi, árið 2013. Á ráðstefnunni var einmitt fjallað um stöðu kvenna um allan heim og margvíslega réttindabaráttu sem oft er háð við ótrúlega hörð skilyrði. Ógleymanleg var frásögn hinnar ungu Khalidu Popal frá Afganistan sem lýsti því hvernig áhugi hennar á að spila fótbolta varð að breytast í mannréttindabaráttu þar sem stúlkum og konum þar í landi leyfðist ekki slík óhæfa. Khalida býr nú í Danmörku, útlagi úr eigin föðurlandi. Shirin Ebadi, handhafi friðarverðlauna Nóbels frá 2003, lýsti réttindabaráttu sinni og annarra kvenna í Íran, því mikla klerkaveldi, og hvernig Kóraninn er notaður til að réttlæta það sem aldrei verður réttlætt: Kúgun og undirokun. Hún er líka útlagi úr eigin föðurlandi. Þær komu þarna fram konurnar, hver á fætur annarri, og lýstu baráttu sinni við Feðraveldið í ýmsum myndum, víðs vegar um heiminn. Styrkur þeirra og mannleg reisn mitt í því sem getur aðeins kallast óhugnaður, verða ógleymanleg.

Í flestum ef ekki öllum tilvikum koma trúarbrögð við sögu. Í nafni trúar eru konur settar skör lægra en karlar, í nafni trúar eru konur sniðgengar sem samfélagsverur, í nafni trúar sæta konur ofbeldi.

Þetta er ekkert nýtt. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sú mikla kvenréttindakona, lýsti því í fyrirlestri árið 1887 hvernig guðspjöllin hefðu verið og væru notuð til þess að réttlæta lægri stöðu kvenna og jafnvel kúgun. Bríet vill meina að kenning Páls postula í fyrra bréfi Korintumanna hafi verið og sé mikill áhrifavaldur. Þar býður hann nefnilega konum að þær séu mönnum sínum undirgefnar, þolinmóðar og auðsveipar og að hylja höfuð sín í kirkjum og á mannfundum, en kveður karlmenn eiga að vera berhöfðaða, „því karlmaðurinn sé vegsemd Guðs,“ og „maðurinn sé eigi af konunni, heldur konan af manninum.“  Hann skipar einnig konum að þegja á mannfundum en spyrja heldur menn sína heima. Telur ekki sæma að konur tali opinberlega. Þessi kenning, segir Bríet, hefur að nokkru leyti orðið undirrót þeirrar harðstjórnar og gjörræðis sem konur hafa oft orðið að þola. „Því þótt Páll kenndi að maðurinn væri konunnar höfuð sem Kristur safnaðarins höfuð, þá hafa þó margir þeirra eigi að síður leyft sér að nota þetta vald á allt annan veg. Þeir hafa sleppt seinni hluta setningarinnar, annaðhvort af gleymsku eða af því að þeim hefur þótt hann óþarfur og ónotalegur þröskuldur fyrir því að hægt væri fyllilega að nota herraréttinn. Og karlmenn hafa notað hann, það er óefað.“

Hér er óvægin íslensk lýsing á Feðraveldinu frá 19. öld, gerið svo vel.

Á því merka fyrirbæri feisbúkk gengur nú saga um föður sem skrifar dóttur sinni bréf eftir að hafa dvalið um stund í snyrtivörudeild stórverslunar og lesið utan á alla staukana og baukana skilaboðin til kvenna um fegurra útlit, betra útlit, æðislegt útlit. Hann biður dóttur sína meðal annars um að muna að styrkur hennar felist ekki í sterkum og fallegum fingurnöglum heldur í hjartalaginu.

Hvar ertu fallegust? spyr hann, og svarar: Að innan.  Mundu það.

Ég blandaði karli föður mínum inn í þennan dag hér í upphafi. Það er við hæfi að enda á honum. Hann var alls ekki neitt Feðraveldislegur – ekki frekar en faðirinn sem skrifaði bréfið á feisbúkk. Hann dáðist að sterkum konum á tímum þegar lítið var um slíkar, í umræðunni að minnsta kosti. Katrín Thoroddsen læknir, Rannveig Þorsteinsdóttir lögfræðingur, báðar alþingiskonur og þekktar fyrir snaggaraleg tilsvör sín – þetta voru hans konur, ásamt Mahaliu Jackson söngkonu. Hann lét mig aldrei finna annað en að ég gæti það sem ég vildi taka mér fyrir hendur. Hann otaði ekki fram eigin skoðunum með hávaða eða látum. Hann kaus að sýna mér að allir vegir væru færir með eftirbreytni sinni og vali á fyrirmyndarkonum – heima var enginn Faðir með stóru effi sem öllu réði. Feðraveldið ríkti að minnsta kosti ekki þar.

Jafnréttið byrjar heima. Allar stúlkur eiga föður, og afa, margar bræður og syni. Hvaða faðir vill ekki dóttur sinni vel? Enginn, hefði ég haldið. Það er mikilvægt að feður leggi dætrum sínum lið í mannréttindabaráttu hvar í heiminum sem er, feður og afar, frændur, bræður og synir. Barátta kvenna um heim allan hefur skilað miklum árangri. Henni lýkur hins vegar ekki, og getur ekki lokið, án feðra, bræðra og sona. Saman leggjum við Feðraveldið að velli og byggjum nýtt samfélag.