Góði söfnuður Laugarneskirkju.

Allt sem er einhvers virði í þessum heimi kostar tíma. Eitt af því besta sem fyrir mig hefur komið er t.d. það að hafa fengið að þjóna við Laugarneskirkju frá sumrinu 1998. Tíminn sem ég hef átt með ykkur hefur verið hlaðinn ríku innihaldi. Hversu mikið er búið að hlægja þessi ár? Hversu oft hefur verið grátið? Hve mikið erum við búin að læra af mistökum, sáttum og sigrum? Ég segi það fyrir mig að ég veit betur í dag heldur en ég vissi fyrir bráðum 16 árum að lífið er þess virði að lifa því og best er að lifa á samleið með öðrum.

Ég vona að ég hætti aldrei að tilheyra Laugarnessöfnuði, en núna er komið að því að ég fái að skipta um hlutverk. Ég hef ákveðið að láta af embætti sem sóknarprestur og halda áfram að gera svo margt annað sem nú liggur á huga mínum og hjarta á samleið með ykkur öllum.

Við Jóna Hrönn Bolladóttir eiginkona mín erum að lifa einstaka daga í námsleyfi hér úti í Pasadena í Kaliforníu og erum í óðaönn að endurnærast á allan mögulegan máta. Aðal verkefni mitt hér er það að vinna að rannsókn á eðli fátæktar og farsældar. Eins og mörg ykkar vitið er það búið að trufla mig lengi þetta með fátæktina í samfélagi okkar. Núna hef ég tækifæri til þess að móta vel ígrundaða kenningu um það hvaðan hún er runnin og hvað það er sem viðheldur henni. „Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.” sagði Jesús. Farsæld og fátækt er okkar mál,  málefni kirkjunnar. Ég er að vona að mér auðnist að benda á mikilvæga þætti sem flýti fyrir samfélagsþroska okkar í þessum efnum.

Ástæða þess að ég tek af skarið með þetta strax er sú að það væri ekki gott fyrir söfnuðinn að hafa þessi mál í lausu lofti á meðan ég er að ljúka doktorsnámi.

Þegar ég kem heim í sumar mun ég vera við þjónustu í júlí og ágúst áður en nýr sóknarprestur sem söfnuðurinn á eftir að velja tekur við. Eftir það ætla ég að einbeita mér að rannsóknarvinnunni.

Þessi ákvörðun er búin að vera marga mánuði innra með mér. Frammi fyrir Guði hef ég vitað að að þessu drægi þótt ekki væri tímabært að ræða það fyrr en núna. Ákvörðunin er tekin í samráði við mína nánustu og margt fleira gott fólk, m.a. Biskup Íslands og sóknarnefnd Laugarneskirkju. Hér eru kaflaskil sem ég veit að eru tímabær og munu verða til góðs.

 

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest í sumar.

Skrifað í Pasadena

20. febrúar 2014

Bjarni Karlsson