Kæri söfnuður

by May 26, 2014Blogg

Nú eru breytingatímar í lífi Laugarneskirkju. Nýr sóknarprestur hefur verið valinn og það er nú þannig að það gerist aldrei án fyrirhafnar. Valnefnd safnaðarins var ekki öfundsverð af því verkefni að velja á milli hæfra umsækjenda.

 

Um leið og ég óska Kristínu Þórunni Tómasdóttur til hamingju með valið og gleðst yfir því að söfnuðurinn og hverfið fái að njóta hennar góðu krafta vil ég enn fremur þakka Sigurvini Lárusi Jónssyni fyrir hans frábæru störf umliðið ár. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að með hans aðkomu að starfi safnaðarins var nýtt líf og kraftur í húsinu sem hefur glatt mig ósegjanlega. Hans góðu verk munu fylgja honum fram á veginn.

 

Þegar valinn er sóknarprestur er annars vegar verið að velja leiðtoga fyrir félag og hins vegar verið að ráðstafa opinberu embætti. Þar togast á ólíkir kraftar og ég hygg að í þeirri togstreitu sé heilbrigði fólgið fyrir kirkjuna. Það hefði verið einfaldast fyrir alla að fá Sigurvin í embættið vegna þess að hann er búinn að sanna að hann er fram úr skarandi í starfi og söfnuðurinn er farinn að elska hann. Hins vegar er það jafn satt að það er ekki hægt að ráðstafa opinberum embættum með þeim hætti. Það þarf að huga að jafnræði og að réttum formsatriðum. Niðurstaða sóknarnefndar er sú að Kristín Þórunn standi embættinu nær og þótt ég hafi ekki rætt við nefndarfólk ennþá þá er ekki erfitt fyrir mig að sjá hvers vegna. Hún er einn af okkar bestu guðfræðingum og prédikurum, hún hefur verið einkar farsæll héraðsprestur í Kjalarnesprestakalli umliðin ár og hefur líka sýnt með starfi sínu í Vídalínskirkju í vetur sem afleysingaprestur fyrir Jónu Hrönn eiginkonu mína að hún er sterk í starfi.

 

Við Kristín Þórunn og eiginmaður hennar Árni Svanur Daníelsson höfum verið vinir til margra ára og þegar hún sótti um embætti sóknarprests í Langholti var ég einn af hennar meðmælendum. Eins höfum við Sigurvin verið nánir samherjar umliðin ár. Því er ég bæði glaður og hryggur í dag.  Hryggur vegna þess að þetta er erfitt ferli fyrir alla. En glaður vegna þess að sóknarnefnd hefur skilað sínu verkefni af myndugleika og valið söfnuðinum góðan sóknarprest.

 

Bjarni Karlsson