Ávarp í kveðjumessu

by Aug 31, 2014Blogg

Í kveðjumessu sr. Bjarna sl. sunnudag flutti Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, formaður sóknarnefndar Laugarneskirkju, ávarp sem okkur langar til að deila hér.

Kæri Bjarni okkar allra,
Á einu æviskeiði kynnumst við allskonar fólki, sem er okkur mislengi samferða á lífsins leið. Fólkið snertir líka við okkur á mismunandi hátt og á meðan sumir eru okkur fyrirmyndir eru aðrir svona alltumvefjandi og fullir hlýju til náungans. Svo höfum við þig, Bjarni, sem ert bæði: Ég held að ég geti talað fyrir munn okkar allra þegar ég segi að þú ert bæði fyrirmynd, leiðtogi og umhyggjusamur hugsjónamaður. Það feta fáir í þín fótspor enda skilst mér á einum kollega þínum að það fari enginn í þína skó, þar sem þeir koma aðeins í einu númeri.
Í sextán ár hefurðu þjónað Laugarnessöfnuði af óendanlegum kærleika og trúfesti, dugnaði og krafti. Þú ert frumkvöðull sem hefur ekki aðeins fengið frábærar hugmyndir sem hafa bæði eflt kirkjuna innanfrá, heldur hefurðu einnig verið drifinn áfram af óendanlegum áhuga á fólki og óbilandi þrautseigju gagnvart aðstæðum sem flestir aðrir hefðu gefist uppá. En það er akkúrat það sem lýsir þér sennilega best: Þú hlustar á fólk, hefur óbilandi trú á fólk sem þú smitar áfram til þeirra sem leiðir til þess að fólk eflist og styrkist og getur jafnvel tekist á við aðstæður sem það áður taldi óyfirstíganlegar.
Þú ert nefnilega þjónandi leiðtogi, Bjarni, og það er eitt lykilatriði sem þjónandi leiðtogar búa yfir: Þeir, sem njóta þjónustu eða návistar við þjónandi leiðtoga vaxa sem einstaklingar. Við, sem hér erum saman komin í dag, höfum notið þjónustu þinnar, kæri Bjarni, á ólíkan hátt. En ég er viss um að við höfum öll eflst í gegnum þjónustu þína, hvert okkar á sinn hátt. Sjálf hef ég notið þjónustu þinnar við eina af mestu gleðistundum lífs míns, þegar ég gifti mig, og einnig eina þá þungbærustu, þegar við kvöddum föður minn hér í þessari góðu kirkju. Við báða þessa lífsviðburði varstu klettur, boðberi kærleika og líka mannlegur. Það hefur enda verið lærdómsríkt að fylgjast með hvernig þú ert ekkert að reyna að vera fullkomlega með tök á öllum aðstæðum, heldur ertu óhræddur við að vera mannlegur.
Og þess vegna höfum við áunnið svo ótal margt núna þegar við lítum tilbaka yfir árin 16. Og það sem er dýrmætast er sennilega það, líkt og ég hef nefnt áður, að Laugarneskirkja er orðin sjálfráða. Hér starfar fólk sem býr yfir einlægum áhuga á að láta gott af sér leiða og hingað kemur fólk vegna þess að það veit að Laugarneskirkja býður alla velkomna og hefur tileinkað sér orðin: Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig. Þú stígur til hliðar í dag, en þú hefur nestað okkur vel. Þess vegna er ég ekki döpur í dag þó við séum að kveðjast, heldur er ég almættinu óendanlega þakklát fyrir þessi dásamlegu ár, allar litskrúðugu minningarnar, skrýtnu hugmyndirnar, eldmóðinn, kraftinn, hugrekkið, vonina, óbilandi trúna, gleymskuna á nöfn og kærleikann.
Takk Bjarni, fyrir að vera presturinn okkar allra.
Takk elsku Jóna Hrönn, fyrir að vera hinn helmingurinn af Bjarna og fyrir umburðarlyndið, stuðninginn og samstöðuna í gegnum öll þau ævintýri sem við höfum tekið þátt í saman. Það eru forréttindi að þekkja fólk eins og ykkur og við hlökkum til að vera ykkur áfram samferða í lífinu.
Ég bið algóðan Guð að blessa ykkur bæði, kæru hjón, í öllum þeim verkefnum sem þið takist nú á hendur. Og líkt og ég sagði við þig fyrir réttu ári, Bjarni minn, áður en þú hélst á vit hollywood og nýrra drauma, þá dáist ég enn að þér fyrir að stíga skref sem flestum okkar virðast ógerleg, því nú stígur þú út fyrir þægindahringinn enn á ný og það veit Guð að það mun leiða af sér gott. Vegna þess að ef hjartað ræður för, verður aðeins til eitthvað sem er gott.
Við í sóknarnefnd viljum gefa þér hér smá gjöf að skilnaði, sem ég veit að þú munt nýta til að heimsækja hana Möttu ykkar sem býr hinum megin við hafið. Það er ekkert eins mikilvægt og dýrmætt eins og að njóta stunda með ástvinum sínum, svo, njótið vel mín kæru.

Takk Bjarni minn og Jóna Hrönn, Guð blessi ykkur.
Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, formaður sóknarnefndar Laugarnessóknar