Góðan daginn Laugarneskirkja!

Kristín Þórunn TómasdóttirKæri söfnuður. Nú er upp runninn september og heilmikil tímamót ganga yfir. Frá og með deginum í dag er ég sóknarpresturinn ykkar og stend vaktina í prestþjónustu safnaðarins. Í því felst fyrst og fremst að leiða helgihaldið okkar á sunnudögum og í miðri viku, þjóna söfnuðinum á stóru lífsstundunum og vera til taks fyrir sóknarbörn sem vilja samtal um lífið eða trúna. 

Presturinn vinnur náið með starfsfólki og sjálfboðaliðum kirkjunnar og eins og þið vitið þá er líf og fjör í safnaðarheimilinu alla vikudaga. Frá og með þessari viku fer flest hefðbundið starf í gang að nýju eftir sumarið og ég hvet ykkur til að fylgjast með dagskrá og því sem er boðið upp á.

Mig langar mjög mikið til að vera í sambandi við ykkur og heyra frá ykkur – hugmyndir, ábendingar, hvatningu og gagnrýni. Það er alltaf hægt að senda mér póst, sem ég opna reglulega, á kristin@laugarneskirkja.is, og auðvitað hitta mig í safnaðarheimilinu.

Fyrsta verkið mitt sem sóknarprestur í Laugarneskirkju er að fara á kvenfélagsfund í kvöld. Það verður gaman enda er efni fundarins frábært – sultur! Á morgun eru svo skírnarviðtöl, starfsmannafundur, sóknarnefndarfundur og fyrsti opni fundurinn í 12-spora starfinu Vinir í bata.

Mig langar að gera orð sóknarnefndarformannsins okkar, hennar Öddu að mínum, en hún sagði í kveðjumessunni hans Bjarna í gær: „Hér starfar fólk sem býr yfir einlægum áhuga á að láta gott af sér leiða og hingað kemur fólk vegna þess að það veit að Laugarneskirkja býður alla velkomna og hefur tileinkað sér orðin: Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Kristín Þórunn Tómasdóttir
sóknarprestur í Laugarneskirkju