Græn guðsþjónusta í Laugarneskirkju 21. september

Græn guðsþjónustaLoftslagsbreytingar eru mál dagsins. Í grænni guðsþjónustu í Laugarneskirkju næsta sunnudag fræðumst við um alvarlegar afleiðingar hlýnandi loftslags á jörðinni og mikilvægi þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sr. Kristín Þórunn prédikar og þjónar fyrir altari og Lögreglukórinn leiðir sönginn. Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands flytur ávarp.

Fundað um loftslagsbreytingar

Þessa dagana halda þjóðarleiðtogar fund í New York, um hvernig hægt er að bregðast hratt og örugglega við alvarlegu ástandi sem skapast víða í heiminum með hlýnandi loftslagi og hækkandi yfirborði sjávar. Einnig safnast fulltrúar ólíkra trúarbragða saman þessa helgi í borginni undir merkjum Interfaith summit on climate change. Tilgangur þess fundar er að miðla til samfélagsins reynslusögum frá ólíkum heimshornum af því hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á líf fólks og að undirstrika að ástandið varðar allt mannkyn, óháð trú, þjóðerni eða búsetu.

Loftslagsganga að lokinni messu

Einnig verður efnt til Loftslagsgöngu út um allan heim, þar sem almenningur kemur saman til að leggja áherslu á og krefja stjórnvöld um að raunverulega verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í Reykjavík verður ganga frá Drekasvæðinu við Frakkastíg niður á Austurvöll kl. 14.

Í grænu guðsþjónustunni í Laugarneskirkju sem hefst kl. 11, þjónar og prédikar sr. Kristín Þórunn en einnig ávarpar Árni Finnson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands söfnuðinn. Hann er einn af skipuleggjendum Loftslagsgöngunnar hér á landi.

Tónlistin í grænu guðsþjónustunni er í höndum Lögreglukórsins og undirleikari er Bjarni Jónatansson.