Æskulýðsfélagið Týrannus á Landsmóti

Þá er æskulýðsfélagið okkar í Laugarneskirkju, Týrannus, búið að skella sér á Landsmót ÆSKÞ 2014 sem haldið var á Hvammstanga, en um 600 ungmenni víðsvegar frá komu saman og fögnuðu lífinu saman í gleði.
Mótið fer vel fram í alla staði og skiluðu 14 sæl og sátt ungmenni sér heim eftir mikla skemmtun.

Dagskráin var fjölþætt en hópurinn hristi sig vel saman í góðri rútuferð og hitaði vel upp (t.d. með hinum klassíska leik „Hver er maðurinn?”). Eftir góðan kvöldverð og samhristing var boðið upp á sundlaugarpartý, spil, vidjó og lofgjörðarstund. Laugardagurinn hófst með skemmtilegri fræðslustund þar sem kynlíf og kynhlutverk voru til umræðu. Eftir hádegi var fjölbreytt hópastarf og Karnival, en á Karnivalinu safnaði hópurinn til styrktar alnæmisverkefnis Hjálparstarfs Kirkjunnar sem stuðlar að forvörnum, aðhlynningu og stuðningi við alnæmissjúka og börn sem misst hafa foreldra af völdum sjúkdómsins. Seinnipartinn fór fram Hæfileikakeppni ÆSKÞ en sigurvegarinn í ár var hún Kolbrún okkar sem söng lag Ed Sheeran “I See Fire”. Æskulýðsfélagið kom í heild sinni upp á svið um kvöldið þegar úrslit voru ljós og fögnuðu með Kolbrúnu sem söng fallega sigurlagið aftur fyrir fagnandi salinn.
Fyrir marga var ballið um kvöldið hápunkturinn, en hljómsveitin Sálmar fór á kostum þar og spilaði hvern smellinn á fætur öðrum.
Á sunnudeginum var haldið í messu, ekki á hverjum degi sem maður á slíka stund með 600 unglingum.
Hópurinn skilaði sér sáttur heim seinnipartinn og er óhætt að vera stoltur af hóp okkar úr Laugarneskirkju sem sýndi af sér mikinn þokka; kom vel fram, kurteis og lífsglöð gerðu þau ferðina ógleymanlega.