Dagskrá eftir hádegið fellur niður

by Nov 27, 2014Sunnudagurinn

Vegna óveðurs í Reykjavík fellur dagskráin eftir hádegið á fyrsta sunnudegi í aðventu niður.  Fjölskylduguðsþjónustan klukkan ellefu verður á sínum stað. Verið hjartanlega velkomin.

*******

Aðventukvöld Laugarneskirkju verður kl. 20 þann 14. desember

Hið árlega Aðventukvöld er kl. 20 á sunnudaginn. Þá fyllist kirkjan af ljósi og ljúfum tónum. Dr. Hjalti Hugason flytur hugvekju, Skólahljómsveit Austurbæjar leikur undir stjórn Vilborgar Jónsdóttur, Kór Laugarneskirkju syngur, Gerður Bolladóttir syngur einsöng og Ragnheiður Jóhannsdóttir leikur á fiðlu. Hápunktur kvöldsins eru kertabænir fermingarbarnanna en þær eru hefð sem í huga margra í hverfinu er órjúfanlegur hluti af aðventunni. Að lokinni samveru er boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur.

Aðventubíó verður annan og þriðja sunnudag í aðventu kl. 15

Fyrstu þrjá sunnudagana í aðventunni er Aðventubíó Laugarneskirkju starfrækt. Það er fyrir alla aldurshópa og allir eru velkomnir. Núna á sunnudaginn verður kvikmyndin Þegar Trölli stal jólunum sýnd og boðið verður upp á popp og djús!

Fjölskylduguðsþjónusta kl. 11

Kl. 11 á sunnudaginn verður fjölskylduguðsþjónusta í umsjón sóknarprests og æskulýðsfulltrúa. Þar verður glatt á hjalla, ljós tendrað á aðventukransinum og vinningsatriði frá hæfileikakeppni Landsmótsins flutt. Ennfremur kemur fram Leikhópurinn Ævintýraþvottavélin og frumflytur skemmtilegt verk. Djús og hressing að því loknu.

Kyrrðarstund og íhugun kl. 11.30 á laugardaginn

Á laugardaginn verður kyrrðar- og íhugunarstund í safnaðarheimili Laugarneskirkju, eftir fyrirmynd kvekara. Kvekarar eru kristin kirkjudeild sem á uppruna sinn í Englandi á 17. öld. Kvekarar eru þekktir fyrir róttæka friðarhugsun og áherslu á sjálfbærni og einfaldan lífsstíl. Stundin fer fram í kyrrð og vináttu og er öllum opin. Kl. 11.30-12.30. Kaffi og spjall á undan og eftir.

Guðspjall 1. sunnudags í aðventu

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:
Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Lúk 4.16-21

Lestra dagsins, bænir og sálma má lesa á kirkjan.is.