Lifandi kirkja í lifandi húsi

by Nov 24, 2014Forsíðufrétt, Pistill

Safnaðarheimilin gegna lykilhlutverki í kirkjustarfinu. Kirkjan verður til þar sem fólkið kemur saman til að syngja og tala, prjóna og biðja, föndra, drekka kaffi, til alls þess sem sem söfnuðurinn skapar í sameiningu. Þess vegna er umhugsunarvert hvernig við nýtum safnaðarheimilið til að skapa samfélag sem er öllum opið.

Í öllum hverfum borgarinnar, í hverjum bæ og hverri sveit er sérstök þjónustumiðstöð nærsamfélagsins. Þar er veitt margþætt þjónusta fyrir einstaklinga og hópa í ólíkum aðstæðum sem koma upp í lífinu. Þetta eru sóknarkirkjurnar og safnaðarheimilin.

Víða um land, bæði í þéttbýli og dreifbýli, hafa söfnuðir þjóðkirkjunnar komið sér upp aðstöðu til að styðja við hefðbundið helgihald og embættisverk prestsins í sókninni. Á mörgum stöðum hafa verið byggð glæsileg safnaðarheimili, með vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk, fundarsölum, eldhúsi og fjölnota rými sem nýtist allskonar fólki við allskonar iðju.

Síðustu áratugina hafa söfnuðir þjóðkirkjunnar búið við tiltölulega öruggt fjárhagsumhverfi sem hefur leyft þeim að gera áætlanir um framkvæmdir og rekstur, þar með talið byggingu húsnæðis og starfsmannahald. Þessar aðstæður hafa nú breyst og tekjur safnaðanna hafa dregist stórlega saman. Það stafar af ástæðum sem ekki verður farið nánar út í hér að öðru leyti en því að óhætt er að leiða líkur að því að þær breytingar verði til frambúðar.

Eftir stendur að í uppbyggingu síðustu ára í húsakosti safnaðanna liggja mikil tækifæri. Söfnuðirnir standa frammi fyrir miklum niðurskurði í rekstri og starfsmannahaldi en þeir eiga í mörgum tilfellum safnaðarheimili sem eru ekki að fara neitt. Í því ljósi eru möguleikarnir ótakmarkaðir í því að byggja upp samfélag karla og kvenna, barna og fullorðinna, og gera safnaðarheimilið að lifandi miðstöð þar sem gjafir og hæfileikar hvers og eins fá að blómstra í þágu samfélagsins.

Á kreppu- og niðurskurðartímum gildir að finna ný tækifæri og nýjar leiðir til að leyfa kirkjustarfinu að blómstra. Erfiðir tímar geta komið okkur upp úr hjólförum vanans og hjálpað til við að sjá hlutina í nýju ljósi. Upp úr krísunni geta sprottið ávextir sjálfboðinnar þjónustu og víðtækrar þátttöku sem auðgar líf einstaklinga og samfélagsins alls.