Sparifatasöfnun

by Nov 15, 2014Blogg

Hluti af undirbúningi jólanna hjá sumum er að taka til í fataskápum heimilisins og rýma fyrir nýjum flíkum sem hugsanlega munu rata í jólapakkana. Börnin spretta úr grasi og fínu jólakjólarnir eða flauelsbuxurnar sem voru keypt í fyrra eru bara orðin allt of lítil.

Síðustu tvær vikurnar í nóvember stendur Laugarneskirkja fyrir sparifatasöfnun og fólk má koma með fötin í kirkjuna þar sem þeim verður safnað saman og þau síðan færð til Hjálparstarfs kirkjunnar. Sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar sjá síðan um að flokka fötin eftir stærð og gerð, svo fólk geti gengið að þeim og fundið falleg föt sem henta heimilisfólki.

Starfsfólk Laugarneskirkju fór í heimsókn í Hjálparstarf kirkjunnar í vikunni til að kynna sér hvernig jólaúthlutunin fer fram. Aldurinn 5-14 ára, sérstaklega á drengi, er það sem er mest aðkallandi, samkvæmt upplýsingum frá Hjálparstarfinu. Tekið er við fötum í Laugarneskirkju 16.-30. nóvember á þeim tímum sem kirkjan er opin, sem er alla daga, nema mánudaga.