Ein af skemmtilegu jólahefðunum í Laugarneskirkju er jólastund barnanna sem er haldin kl. 16 a aðfangadag í kirkjunni. Það er algjör snilld að hittast á þessari stund, hún er hátíðleg og óformleg í senn – en aðallega notaleg og einlæg.
Hápunktur samverunnar, sem sóknarprestur, organisti og sunnudagaskólaleiðtogar halda utan um, er helgileikur þar sem ungir kirkjugestir stíga á stokk og færa jólaguðspjallið í leikrænan búning.
Í ár höfðu áhorfendur á orði hvað Jósef og María voru í miklum karakter – þrátt fyrir ungan aldur leikara. Áhorfendaverðlaunin fóru hins vegar til Gabríels erkiengils sem fór á kostum.
Jólastundin og helgileikurinn eru dýrmætar hefðir í lífi Laugarnessafnaðar og ómissandi hluti af komu jólanna fyrir margar fjölskyldur.