Þannig vill Guð mæta okkur

by Dec 7, 2014Forsíðufrétt, Pistill

Í hugvekjubókinni Út í birtuna sem kom út á aðventunni fyrir fjórum árum skrifar Arnfríður Guðmundsdóttir um kærleika Guðs:

Við skulum hugsa um kærleika Guðs, um umhyggju Guðs fyrir okkur, eins og móðurástina. Kannski munum við eftir þeirri huggun sem við sóttum í móðurfaðm. Kannski eigum við lítil börn sem sækja huggun til okkar. Þannig vill Guð mæta okkur; eins og móðir sem breiðir út faðminn á móti barni sínu; eins og móðir sem býður barni sem leitar huggunar brjóst sitt; eins og móðir sem leitast við af öllum mætti að mæta þörfum barnsins, að hugga það og styrkja, uppörva og hvetja.

Hér leggur hún út frá textanum í 66. kafla spádómsbókar Jesaja í Gamla testamentinu. Það er hin milda nánd og aktíva umhyggja Guðs sem skín í gegn, eins og hún gerir í myndlíkingunni um samband Guðs og manneskju sem samband foreldris og barns.

Þetta er gott veganesti til okkar á aðventunni sem er einmitt tíminn til að íhuga samband okkar við Guð og samband okkar við hvert annað.

Guð gefi þér góða viku kæri lesandi.