Frelsi til að leika sér

by Jan 11, 2015Prédikun

Kæri söfnuður. Ég heilsa ykkur í Jesú nafni, á nýju ári, þegar við stöndum á þröskuldi hins ókomna – eins og hver einasta stund ber með sér. Þessi tími í upphafi nýs árs og alveg eftir jólin, er undursamlegur og krefjandi í senn. Hann einkennist kannski af eftirsjá og söknuði eftir jólunum og einhverju óskilgreindu sem við finnum fyrir en festum ekki hönd á; hann getur líka borið með sér létti sem fylgir rútínunni og reglunni eftir gleði jólafrísins. Þetta finna foreldrar skólabarna vel á eigin skinni. Hver gæti ímyndað sér að það væri hvíld í því að mæta aftur í vinnu þegar jólafríið er gengið um garð og vita að allir eru á “sínum” stað? Ég get alveg vitnað um þessa tilfinningu og er sjálf þakklát fyrir hversdaginn, alveg eins og ég finn djúpa gleði í hvert sinn sem helgi jólanna og hið óvænta sem fylgir hátíðinni drepur á dyr.

Frí og tímamót geta nefnilega verið ágeng á sinn hátt. Við finnum okkur kannski á ágengum tilfinningalegum stað yfir hátíðir eins og jól og áramót, er þetta ekki einmitt tími fyrir upprifjun og uppgjör, köllum við ekki fram minningar um barnæsku og horfna ástvini á þessum tímum? Og getur ekki tíminn með okkar nánustu einmitt tekið á í öllu þessu fríi og hátíðahöldum? Þessi atriði geta verið heilmikið mál að fást við, og geta skilið okkur eftir þreyttari en við ætluðum, þegar fríinu lýkur.

Jólin skilja sem betur fer ekki bara eftir sig þreytu og söknuð – í kjölfarið fáum við að njóta gjafanna sem jólin bera með sér. Þá er ég ekki bara að tala um einstaka jólagjafir – heldur líka boðskapinn og kjarnann sem við tölum svo mikið um. Ljósið í myrkrinu, sigur kærleikans, þátttaka fátækra og ríkra í undri lífsins, mikilvægi barnsins, þetta eru stóru þemu jólanna sem koma til okkar allt árið. Það er ekki síst nærvera barnsins og barnanna sem okkur er lagt á hjarta í kirkjunni þessa dagana – í textum ritningarinnar og guðspjallanna eru börn og veruleiki barnanna fyrirferðamikil í kringum jól og áramót. Við fylgjumst auðvitað með fæðingu Jesúbarnsins, dramatíkinni í kringum flótta Jósefs og Maríu til Egyptalands í ofsóknum Heródesar, því þegar Jesús fær nafnið sitt eftir hefðum þess tíma – og í dag heyrum við söguna um Jesús og börnin.

Guðspjall Markúsar um börnin og Jesú er enn ein sagan af því að Jesús lyftir upp hópum sem hafa ekki forréttindi og eru auðveldlega afgreiddir og settir til hliðar. Hans eigin fylgjendur og lærisveinar eru fyrstir manna til að setja upp hindranir að Jesú sjálfum, þeir vilja stjórna því hverjir komast að honum og fá að njóta samfélags og nærveru hans, og börnin eru ekki í þeim hópi. Ástæðurnar þeirra eru örugglega góðar og gildar – eða þannig – það fylgir jú órói, hávaði og stundum óreiða börnum, kannski voru einhver þeirra með athyglisbrest, kannski voru einhver einhverf og erfið, kannski voru þetta bara börn sem þurfa að hreyfa sig, koma við og spyrja alla spjörunum úr sem þau hitta. Hver er að fara að nenna því?

Jesús tekur ekki bara af skarið og hleypir börnunum inn sem fullgildum og fullkomnum sem eiga allt erindi í samfélaginu, heldur gerir úr þeim fyrirmynd og fordæmi: “Sannlega segi ég yður, hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.”

En hvernig tekur barn við Guðs ríki? Í hverju felst samlíkingin og brýningin sem Jesús setur fram? Hvernig eigum við að vera ef við viljum taka við Guðs ríki? Hvað þýðir það eiginlega?

Þessi texti er lesinn í hvert sinn þegar barn er borið til skírnar. Það gefur ákveðið samhengi og túlkunarlykil. Þegar við berum börnin okkar til skírnar, er það í margþættum tilgangi. Við gefum því nafn, oft er nafnið nefnt í fyrsta sinn við skírnina. Við viljum setja þakklæti okkar, drauma, væntingar, áhyggjur og óvissu í farveg, orða þessar tilfinningar og finna þeim stað. Leggja okkur og barnið í Guðs hendur í gleði okkar og stolti yfir nýjum fjölskyldumeðlim.

Og þá heyrum við þessa sögu um hvernig börnin eru fyrirmynd í því að taka á móti trúnni og lífinu…þegar við berum ómálga og óvita börn til skírnar, þau eru einhvern veginn ekki gerendur heldur þolendur. Liggja í faðmi þeirra sem elska þau og veita þeim alla umhyggju og ást, uppfylla allar þarfir og hlúa að, örva, vernda og umlykja.

Þannig eru börnin. Þau treysta. Þau eru upp á aðra komin. Og Jesús lýsir þau fyrirmyndir í því að taka við Guðs ríki.

Höfum við ekki oft heyrt um gildi þess að varðveita barnið í sér? Hvað felst í því? Er það ekki hæfileikinn að treysta, þiggja, spyrja, biðja um hjálp, hreyfa sig, forvitnast?

Er ekki barnið í því hlutverki að sprengja ramma hins fyrirsjáanlega og leiða hið óvænta inn á sviðið? Er Jesús að beina okkur inn á svið leiksins og uppgötvunarinnar með því að benda á börnin sem fyrirmynd?

Í dag vil ég að við hugleiðum hlut leiksins og hins óvænta í lífinu, að við séum opin fyrir því góða og skapandi sem býður okkar við hvert fótmál. Er það ekki gott markmið á nýbyrjuðu ári?

Ég vil líka leggja okkur á hjarta hvaða hindrunum þessi nálgun mætir í samfélaginu okkar. Hvernig vel meinandi, smart og gáfað fólk, setur fyrirvara við því að takast á við lífið með þessum hætti – alveg eins og lærisveinar Jesú gerðu.

Við erum því miður enn minnt á grófar og ofbeldisfullar hindranir af þessu tagi, í fréttum af morðum og hryðjuverkum þar sem sem tjáningarfrelsi og leikur með hlutverk, hugmyndir og stöðu, eru skotmarkið. Eða réttara sagt, alvöru fólk sem leikur sér með hlutverk, hugmyndir og stöðu, er skotmarkið. Í vikunni sem leið höfum við sett okkur í fótspor fjölmiðlafólksins á tímaritinu Charlie Hebdo í París, sem var myrt fyrir miðlun og listsköpun. Við trúum varla að þetta hafi gerst og að fólk hafi þurft að gjalda með lífi sínu fyrir samfélagsgagnrýni og list í fjölmiðlum.

Við erum líka minnt á börn sem fá ekki að vera börn, því þau njóta ekki frelsis til leiks og uppgötvunar. Börn á flótta, börn í stríðshrjáðum löndum, börn sem búa við ofbeldi og erfið kjör.

Verndum lífið og verndum bernskuna. Verum eins og börnin, höldum áfram að treysta, spyrja, þreifa á og leika okkur. Þetta er áskorun dagsins. Við viljum taka við Guðs ríki eins og börn, byrjum hér og nú, í kirkjunni erum við öll velkomin, þess vegna bjóðum við öllum sem vilja að koma til altaris og taka þátt í kvöldmáltíðinni sem Jesús býður okkur til.

Eins og við förum yfir með fermingarbörnunum sem undirbúa sig fyrir fermingu að vori með því að sækja messur og fræðslustundir, þá er altarisgangan ein sterkasta tjáning á samfélagi kristinna manna, þar er ekkert sem aðgreinir, þar erum við öll í hlutverki barnsins sem treystir, tekur á móti, opnar munninn og þiggur fæðu.

Já, það eru hindranir í formi þeirra sem þykjast vita betur, jafnvel í formi þeirra sem eru tilbúnir að beita ofbeldi til að stöðva leik og sköpun í brjálæðri tilraun til að stemma stigu við frelsi tjáningar og miðlunar. Látum það ekki stöðva okkur í að vera eins og börnin, að líta til barnanna sem fyrirmynd í því að taka á móti lífsins góðu gjöfum, að vera alltaf tilbúin að stoppa, spyrja og snerta.

Í viðkvæmni sinni og auðsæranleika eru börnin þau sem Jesús bendir okkur á sem fyrirmynd og fordæmi. Mættum við stefna að því á nýbyrjuðu ári, þannig verður Guðs ríkið okkar.