Leyfið börnunum að koma til mín

by Jan 8, 2015Sunnudagurinn

Úti er dimmt og kalt, sérstaklega eftir að jólaljósin hafa verið tekin niður. En í Laugarneskirkju er hlýtt og bjart og nú bjóðum við ykkur sérstaklega velkomin í fyrstu messu ársins, sunnudaginn 11. janúar kl. 11. Kristín Þórunn þjónar og prédikar, messuþjónar halda utan um okkur með kærleika og þjónustulund, kirkjukórinn okkar syngur og Arngerður María leikur á píanó og orgel.

Sunnudagaskólinn fer líka af stað, og af því vill enginn missa. Þar eru Hjalti Jón og hans frábæru félagar við stjórnvölinn. Börnin eru líka í sérstöku hlutverki í þessari messu, því guðspjallið er sagan af því þegar Jesús blessar börnin og býður þeim til fullkomins samfélags í kærleika og trú.

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. Markús 10.13-16

Þetta guðspjall er lesið í hvert sinn þegar barn er borið til skírnar, en hér bendir Jesús okkur á börnin sem fyrirmynd í því hvernig á að taka á móti trúnni og á móti lífinu.