Sakkeus og 12 spora starfið

by Jan 15, 2015Sunnudagurinn

Það verður ljúf stund á sunnudaginn kl. 11 þegar við höfum guðsþjónustu og sunnudagaskóla í Laugarneskirkju. Sr. Kristín Þórunn prédikar og þjónar ásamt okkar frábæru messuþjónum, Arngerður María organisti og Hildigunnur Einarsdóttir leiða söfnuðinn í söng og tónlist. Hjalti Jón og félagar halda vel utan um börnin í sunnudagaskólanum.

Eftir messu verður að venju boðið upp á kaffi og djús. Einnig verður boðið upp á kynningu á 12 spora starfi Laugarneskirkju en nýir hópar fara af stað núna í janúar. Það eru Hjalti Jón Sverrisson og Hekla Jósepsdóttir sem halda utan um 12 spora starfið, sem er hluti af starfi Vina í bata.

Um 12 sporin

Reynslusporin 12 eru farvegur sjálfsræktar sem gefa einstaklingum færi á að dýpka sig og vaxa í lífi og starfi. Sporin geta nýst hverjum sem er, óháð aðstæðum og verkefnum lífsins, þar sem þau reynast góð tæki til að mæta tilverunni með heiðarlegri sjálfsskoðun og auka þannig andlegan vöxt.

Úr verður andlegt ferðalag, einstakt hverjum þeim sem leggur af stað. Ferðalag sem gefur af sér dýrmætar gjafir og er síðast en ekki síst stórskemmtilegt!

Í Laugarneskirkju hefur verið starfrækt um áraskeið 12 sporastarf sem unnið er í tengslum við Vini í bata. Nú byrjar starfið að nýju eftir áramót og eru því haldnir kynningarfundir sem öllum er velkomið að sækja til að kynna sér starfið og taka í framhaldinu þátt sé áhugi til staðar.

Annar kynningarfundur verður þann 20.janúar kl.19:30 í safnaðarheimilinu í Laugarneskirkju. Lokaðir fundir í hópum hefjast 27. janúar. Viðburðurinn er á facebook.

Guðspjall dagsins er sagan um Sakkeus, hér er hún:

Guðspjall: Lúk 19.1-10
Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“
Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“
En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“
Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“