Ljós og myrkur á Æskulýðsdeginum

by Feb 25, 2015Sunnudagurinn

Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar er haldinn hátíðlegur 1. mars 2015. Dagurinn er sérstaklega tekinn frá fyrir ungt fólk í kirkjunni og þau fá að láta ljós sitt skína með margvíslegum hætti.

Í Laugarneskirkju verður fjölskylduguðsþjónusta með leik- og tónlistarívafi kl. 11. Leiklistaratriði verða í boði Harðjaxla og Kirkjuprakkara, auk þess sem Rebbi úr sunnudagaskólanum mætir á staðinn. Stundina leiða Kristín Þórunn og Hjalti Jón. Strax að henni lokinni verða sýnd myndbönd eftir krakka í kirkjustarfinu út frá þema dagsins, Ljós og myrkur, í safnaðarheimilinu.

Hönd í hönd – meðmælaganga fyrir trúfrelsi í Laugarnesi kl. 19.30

Breytendur á Adrenalíni er hópur ungmenna á aldrinum 14-17 ára sem starfar innan og utan Laugarneskirkju með það að markmiði að breyta heiminum og veit að besta leiðin til þess er að byrja í bakgarðinum heima hjá sér.

Breytendur á Adrenalíni byggja á hugmyndafræði Breytenda á Íslandi (www.changemaker.is) en Breytendur er ungliðahreyfing sem hefur það markmið að gera heiminn að sanngjarnari og réttlátari stað með jákvæðum og raunhæfum aðferðum.

Áhersla Breytenda á Adrenalíni hefur upp á síðkastið verið á trúfrelsi og hefur hópurinn í því samhengi ákveðið að blása til meðmælagöngu.

Umræðan í samfélaginu, bæði hér á landi og á heimsvísu, hefur verið mikil í tengslum við trúarefni og er meðmælagangan tækifæri fyrir okkur öll að koma saman, óháð því hvar við stöndum innan eða utan trú- og lífsskoðanafélaga og senda skýr skilaboð:
Við megum öll vera allskonar, það er nóg pláss fyrir alla í samfélaginu okkar.

Í aðdraganda göngunnar höfðu Breytendur á Adrenalíni samband við öll þau trú- og lífsskoðanafélög sem hópurinn gat haft upp á og hafa viðbrögðin verið afskaplega góð og margir hópar ákveðið að taka þátt í viðburðinum.

Gengið verður frá Frú Laugu sunnudagskvöldið 1.mars kl.19:30 og mun gangan enda í Laugarneskirkju þar sem fulltrúar Ásatrúarfélagsins, Breytenda á Adrenalíni, Félags Múslima á Íslandi, Laugarneskirkju og Siðmenntar munu ávarpa samkomuna.

Þá munu hljómsveitir tónlistarstarfs Laugarneskirkju spila nokkur lög og einnig mun koma fram Eurovision-stjarnan Elín Sif.

Allir hjartanlega velkomnir!
Óháð því hvar við stöndum hvað trúar- og lífsskoðanir varða þá getum við gengið saman!

——

Dagskrá kvöldsins Hönd í hönd

19:30 – Gengið frá Frú Laugu

20:00 – Gengið inn í Laugarneskirkju þar sem verður stutt dagskrá, m.a:
– Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, formaður sóknarnefndar Laugarneskirkju, býður fólk velkomið
– Garðar Ingvarsson, Breytandi á Adrenalíni, segir nokkur orð um starfið
– Hljómsveitin Helium tekur lagið
– Elín Sif, Eurovision-stjarna, tekur lagið
– Fulltrúar trúfélaga flytja orð
– sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur Laugarneskirkju, þakkar fyrir samveruna og býður fólki í safnaðarheimili kirkjunnar í kaffi og te.