Þú, ég og fjarskylda frænkan í Biblíunni

by Feb 1, 2015Prédikun

Fjölmenningarleg Biblía

Við fengum góða gesti í vikunni, í fermingarfræðslunni, þegar Gídeon menn komu færandi hendi með Nýja testamenti handa öllum fermingarbörnum kirkjunnar. Að auki fengu fermingarbörnin hressandi kennslustund í ýmsu sem snýr að því að fletta upp í og nota Biblíuna, kynntust því hvernig er best að finna kafla og vers, og fengu að spreyta sig á að fletta upp á og finna ákveðna ritningarstaði sem þau þekkja úr biblíusögunum.

Það var góð stemning hjá krökkunum og þeim fannst sérstaklega gaman að heyra um bakgrunn Gídeon manna og söguna um Gídeon sem var hraustur kappi sem leiddi þjóð sína til sigurs í erfiðum aðstæðum. Það var líka mjög spennandi að fá að spreyta sig á því að lesa eitt þekktasta vers Biblíunnar í Jóhannesarguðspjalli, 3.16, á mörgum ólíkum tungumálum:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Að heyra þessi orð á ólíkum þjóðtungum minnti sannarlega á að Biblían er fjölmenningarlegt fyrirbæri sem er lesin út um allan heim á öllum tungum. Reynslan af því að heyra ólík tungumál og ólíkar raddir í samfélagi fermingarbarnanna, gerði þessa góðu gjöf ennþá betri og merkingarbærari fyrir okkur sem þarna voru vorum stödd.

Góðar gjafir

Gjafir eru svolítið eins og rauður þráður í textunum sem við heyrum í dag. Gjafir sem koma til okkar óverðskuldað, eins og hið góða land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, og við heyrðum um í Mósebókartextanum. Gjafir eins og sjálfan grundvöllinn sem byggingarmeistarinn byggir síðan ofan á, eftir sínum efnum og aðstæðum, sem postulinn Páll talar um. Gjafir eins og talenturnar sem húsbóndinn í dæmisögu Jesú setti í hendur þjóna sinna, svo þeir mættu ávaxta þær og auka í þágu góðra hluta fyrir sig og samfélagið sitt.

Í dag eins og alla daga þegar kristið fólk kemur saman, er lesið upp úr Biblíunni. Það er vegna þess Biblían geymir sögu sem kristnir menn taka til sín með sérstökum hætti. Biblían geymir sögu sem er hluti af okkar sögu, af sögu minni og sögu þinni. Saga Biblíunnar hefur áhrif á hvernig sagan þín lítur dagsins ljós og hvernig líf þitt mótast. Í sögu Biblíunnar heyrir kristið fólk Guð ávarpa sig í þeim aðstæðum sem það er hér og nú, og það leitast við að heyra það sem Guð vill segja því.

Biblían er gleraugun sem við lesum Biblíuna með

Í guðsþjónustunni, eins og í dag hér í Laugarneskirkju, heyrum við kafla úr Gamla testamentinu, kafla úr Nýja testamentinu og kafla úr guðspjöllunum. Þannig er það í hvert einasta sinn.

Guðspjallið sem er lesið hefur sérstöðu, vegna þess að þar er greint frá lífi, starfi og orðum Jesú. Textarnir úr Gamla testamentinu og pistlunum í Nýja testamentinu, sem eru bréfin sem postularnir skrifa, tengjast alltaf þema guðspjallsins á einhvern hátt. Hver einasti helgur dagur hefur sína lestrarröð, á sitt par af Gamla testamentistexta, Nýja testamentistexta og guðspjalli. Þessi þrenna er lesin saman og sett í samhengi við líf og aðstæður þeirra sem hlusta.

Þetta finnst mér segja okkur heilmikið um hvernig fyrirbæri Biblían er – hún er ekki texti sem við lesum frá upphafi til enda, hún er ekki einsleit í stíl og uppbyggingu, hún er samansett af textum úr ólíkum áttum frá ólíkum tíma. Hver og einn kafli eða hvert og eitt rit er auðvitað sjálfstætt verk þannig séð en aðferðafræði kristins fólks er að nálgast texta Biblíunnar í gegnum aðra texta hennar, þannig að Biblían verður gleraugun sem við lesum Biblíuna með.

Þetta þýðir að við tökum Biblíuna ekki upp, leitandi að því sem Guð vill segja okkur, og látum nægja það sem við sjáum í fyrsta textanum til að finna svar við einhverjum knýjandi málum líðandi stundar. Þannig virkar það ekki. Það virkar ekki vegna þess að tengsl hins trúaða og Biblíunnar eru allt önnur, miklu dýpri og flóknari.

Við þurfum að hafa í huga hvers konar textar eru í Biblíunni. Þar er að finna lagatexta. Þar er að finna ljóðræna texta. Þar er að finna sendibréf, þar er að finna sögulega texta. Þessir textar eru allir viðbrögð fólks við því sem Guð gerir og segir. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Textar Biblíunnar eru mannleg viðbrögð við verkum Guðs. Textar Biblíunnar eru ekki verk Guðs, heldur mannleg verk. Það þýðir að ekki er allt í Biblíunni vitnisburður um hvað Guði er þóknanlegt. Ekki það hvernig Guðs útvalda þjóð brást við óvinum sínum eða reglur sem hún setti sér í umgengni og siðum. Ekki heldur það sem postular Jesú setja í bréf sín til kristinna manna á fyrstu öldinni eftir að Jesús lifði.

Ekki verk Guðs heldur vitnisburður manna um verk Guðs

Ekki Guðs verk heldur mannanna verk. Hvernig inniheldur þá Biblían ávarp Guðs til þín og okkar sem hér erum í dag? Hvernig er þá Biblían saga sem hefur áhrif á mína sögu og verður hluti af minni sögu? Ég held að svarið liggi í snertifletinum sem við finnum við fólkið sem við lesum um í Biblíunni, við fólkið sem setti söguna sína í texta Biblíunnar og vitnar um leið um reynslu sína af því að vera manneskja í heiminum, að vera manneskja sem elskar, þráir, kreppist, óttast og missir, að vera manneskja sem trúir af því hún hefur reynslu af hinu heilaga sem birtist henni sem leiðarljós, fyrirheit um frelsi og frið. Þessi manneskja, sem gæti verið fjarskylda frænkan þín, mætir þér í vitnisburði sínum um lífið og trúna. Það er gegnum hana sem Guð talar í Biblíunni.

Ég held að við séum á villigötum þegar við reynum að finna vísindalegri sagnfræði, hvað þá vísindalegri náttúrufræði stað í Biblíunni. En ég held að lykillinn að Biblíunni sem trúarriti kristins fólks, sem inniheldur orð og vilja Guðs, sé samt sem áður að finna í þeirri staðreynd að Biblían er sagnfræðilegt fyrir bæri, að hún tilheyri sögulegu samhengi og hefur alltaf verið lesin og túlkuð í sögulegu samhengi. Við sem hér erum saman komin í dag, erum sögulegar verur alveg eins og fólkið sem vitnar um verk Guðs í textum Biblíunnar.

Lesum um verk Guðs í lífi fólks 

Nú hafa öll fermingarbörnin í Laugarneskirkju fengið sitt eigið Nýja testamenti til að eiga og lesa. Við ætlum að nota tímann vel það sem eftir lifir fermingarfræðslunnar, til að lesa, hlusta og læra um fólkið á tímum Jesú sem hann mætti, talaði við og snerti með orðum sínum og verkum. Vegna þess að með því að hlusta á vitnisburð þess um verk Guðs, lærum við um verk Guðs í okkar lífi.

Mig langar til að við í Laugarneskirkju styðjum þau í þessu verkefni og notum tækifærið um leið að dýpka okkar kynni og reynslu af Biblíunni og fólkinu hennar. Fólkinu sem lifði fyrir ótal öldum, var svo ólíkt okkur en líka svo líkt þegar það vitnar um baráttuna fyrir frelsi og réttlæti í heiminum og verk Guðs í lífi okkar allra.