Umhyggja, virðing, vellíðan

by Feb 11, 2015Blogg

Hjúkrunarheimilið Sóltún er afskaplega merkileg stofnun sem starfar innan Laugarnessóknar. Hjúkrunarheimilið leggur mikið upp úr gildum sem miðla virðingu fyrir einstaklingnum en á heimilinu býr fólk sem þarf afar mikla umönnun og utanumhald, vegna elli og heilasjúkdóma eða áfalla.

Hugmyndafræði Sóltúns byggir m.a. á hugsjónum um vellíðan og virðingu, í starfsmannahópi og meðal íbúa og fjölskyldna þeirra. Mikið er lagt upp úr því að starfsmannahópurinn sé í góðum tengslum við grunngildi heimilisins og að allir vinni að sama markmiði. Hluti af stefnunni að auka og styðja við mannvirðingu og vellíðan er starf djákna, en Jón Jóhannsson hefur verið starfandi á heimilinu frá upphafi. Hans hlutverk er m.a. að sinna sálgæslu og samtali með starfsfólki, heimilismönnum og aðstandendum.

Sóltún og Laugarneskirkja hafa alla tíð átt í góðum tengslum og sóknarprestur Laugarneskirkju sinnir núna guðsþjónustum þar einu sinni í mánuði að jafnaði og á stórhátíðum.

Í vikunni hélt sóknarnefnd Laugarneskirkju fund í Sóltúni og þáði upplýsandi og hvetjandi kynningu frá Önnu Birnu Jensdóttur forstjóra Sóltúns. Gott samtal skapaðist enda eru málefni aldraðra og sjúkra brennandi í samfélaginu í dag.