Bænadagar og páskar

by Mar 31, 2015Sunnudagurinn

Ætlar þú að vera í bænum um páskana? Ef svo er, má þá bjóða þér að kíkja í Laugarneskirkju á magnað og fjölbreytt helgihald um hátíðina? Páskarnir eru nefnlega svo miklu meira heldur en súkkulaðiegg og hænuungar.

Dagskráin fer fram á ólíkum tímum dagsins og er með fjölbreyttu sniði.

Á skírdagskvöld kl. 20 hittumst við og höldum á lofti minningu þjónustu Jesú og síðustu kvöldmáltíðarinnar. Ljósin eru slökkt, altarið afskrýtt og gengið út í kyrrð. Fallegur einsöngur fluttur af Gerði Bolladóttur sópran.

Á föstudaginn langa er guðsþjónusta kl. 11, þar lesum við píslarsöguna og hlýðum á magnaða orgeltónlist. Stundinni er útvarpað á Rás 1. Þann dag eru líka guðsþjónustur í Sjálfbjargarhúsinu Hátúni 12 og á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Þar syngur Elma Atladóttir sópran einsöng.

Á páskadag messum við eldsnemma, kl. 8  um morguninn, og upplifum undrið sem felst í gleði og birtu samfélagsins. Ungur maður, Þórður Hallgrímsson leikur á trompet, kór kirkjunnar syngur og eftir stundina verður boðið upp á morgunhressingu í safnaðarheimilinu.

Kl. 11 á páskadag er hinn hefðbundni sunnudagaskóli í Húsdýragarðinum í umsjón kirknanna við Laugardal. Þar er lífinu fagnað í samfélagi manna og dýra og allir eru innilega velkomnir.

Starfsfólk Laugarneskirkju býður þig velkomna/velkominn á allar þessar stundir eða þær sem henta þér.

Gleðilega páska!