Stundin þegar allt breytist. Stundin þegar veröldin fer á hvolf. Ekkert er eins og það var eða eins og maður bjóst við að það yrði þegar augun opnuðust í byrjun dagsins.  Kannski hefur þú fengið fréttir sem sneru veröldinni þinni á hvolf. Sem þú vissir að myndu breyta lífi þínu. Þú veist ekki hvernig en þú veist að það verður ekkert eins og áður.

Þetta er samhengi þess sem við heyrum í guðspjalli dagsins á deginum þegar við íhugum undrið þegar María frá Nazaret komst að því að hún væri ólétt. Í hugann koma vissulega myndir og minningar úr okkar eigin lífi, kannski þegar þú komst að því að þú ættir von á barni, eða einhver þér náinn. Aðstæðurnar þegar barn verður til eru margar og misjafnar, sumar þunganir eru langþráðar og eiga langan undirbúning, aðrar þunganir koma á óvæntum tíma og eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Þrjár þunganir

Það er svo skemmtilgt að í textunum sem við íhugum í dag, er fjallað um þrjár þunganir, þriggja kvenna, þunganir með hver sínum aðdraganda og sitt hlutverk í stóru sögunni um manneskjuna og Guðs. Það sem þær eiga sameiginlegt er að þær opinbera hið óvænta og óskiljanlega í lífi kvennanna þriggja. Og þær minna okkur á að óléttusögur eru ekkert nýtt fyrirbæri, heldur hefur fólk alltaf heillast af og velt fyrir sér öllu sem viðkemur hinu magnaða hlutverki konunnar sem nærir líf af sínu lífi.

Fyrst heyrðum við í Hönnu, sem varð móðir Samúels, sem þýðir “ég hef beðið Drottin um hann”. Hanna hafði beðið lengi eftir því að eignast barn og barnleysið hafði lagt líf hennar undir sig. Konur í kringum hana sem voru orðnar mæður skaupraunuðu henni og ástríkt hjónaband fyllti ekki upp í sorgmætt hjarta hennar sem þráði að eignast og elska sitt eigið barn.

Lýsingin á sorg og gráti Hönnu yfir barnleysinu snertir þann sem les djúpt, kannski getur samt enginn skilið hana til fulls nema sú sem hefur staðið í sömu sporum; beðið mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, eftir því að þungunarprófið komi jákvætt út, en alltaf til einskis. En stundum gerast kraftaverkin einmitt, og þungun á sér stað. Hanna fékk að verða móðir, Samúel fæddist og fékk hlutverk í sögu hinnar útvöldu Guðs þjóðar. Lofsöngurinn sem Hanna flytur í ritningartextanum, tjáir yfirþyrmandi og geggjaða gleði hennar yfir því sem hún fékk að reyna.

Önnur þungunin sem snertir þennan sunnudag og íhugunarefni okkar í dag, er barnið sem Elísabet frænka Maríu bar undir belti, þegar María skaut upp kollinum í litla fjallaþorpinu þar sem frænka hennar bjó, til að deila með henni reynslu sinni.

Sú þungun kom sannarlega á óvart. Elísabet og Sakaría maður hennar voru hnigin að aldri og höfðu aldrei eignast barn. Þau höfðu beðið og vonað en núna voru þau eiginlega hætt að leiða hugann að því sérstaklega, að þau myndu ekki eignast erfingja. Lífið hafði gengið sinn vanagang, ár eftir ár, Sakaría var presturinn í þorpinu og sinnti starfinu af trúmennsku. Þá var það við að svolítið reglulega óvænt gerðist – í miðri guðsþjónustu birtist Sakaría engill til hliðar við altarið, sem segir honum að nú sé Elísabet orðin ófrísk og að þau munu eignast son sem eigi að heita Jóhannes. Þessar fréttir koma Sakaría svo í opna skjöldu að hann á ómögulegt með að trúa því að þetta geti gerst. Drengurinn fæddist nú samt, var látinn heita Jóhannes og varð síðar kallaður Jóhannes skírari, sem skírði Jesú í ánni Jórdan og var tekinn af lífi í grimmum leik Heródesar konungs.

Þegar Elísabet var á sjötta mánuði kemur svo María frænka hennar í óvænta heimsókn. Þetta varð engin skyndiheimsókn, heldur dvaldist hún hjá frænku sinni í þrjá mánuði – kannski til að hjálpa til á heimilinu og styðja eldri konuna í hennar blessaða ástandi. En við komuna, jafnvel áður en María greinir Elísabetu frá því að hún sjálf á von á barni, áttar Elísabet sig á því að hér er eitthvað alveg sérstakt á ferð, hér er heldur engin venjuleg þungun á ferð. Barnið í móðurlífi Elísabetar tók viðbragð þegar María birtist og Elísabet kallar upp heilsan til Maríu, með orðum sem eru flutt aftur og aftur í öllum Ave Maríum sem eru sungnar við öll möguleg tækifæri: Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður sé ávöxtur lífs þíns!

Fréttirnar hennar Maríu

Tíðindin um þungun Maríu, stúlkunnar ungu sem var heitbundin Jósef í Nazaret, voru kannski þau óvæntustu og mikilvægustu af öllum þungunum sem við lesum um bókmenntasögunni. Það var líka engill sem birtist Maríu og sagði henni fréttirnar sem áttu eftir að breyta öllu í hennar lífi. Flækjustigið var mun hærra hjá Maríu heldur en bæði Hönnu og Elísabetu, því María var ekki gift og það skipti öllu máli. Litla barnið sem myndi fæðast, kæmi ekki inn í örugg og rótgróið heimilishald, María var bara unglingur og ekki komin með eigið heimili til að sjá um. Þetta voru sannarlega óvæntar og jafnvel óþægilegar fréttir sem engillinn skellti á Maríu þennan dag og þær vöktu henni ótta. Hvað myndi gerast? Hvað myndi verða um hana? Hvað myndi fólk segja?

Af þeim fjölmörgu listmyndum sem gerðar hafa verið eftir sögunni um boðun Maríu, eru fæstar sem tjá þessa hlið. Ein fræg mynd er eftir ítalska listamálarann Sandro Botticelli sem var máluð undir lok fimmtándu aldar. Hún sýnir atburðinn í samtímaumhverfi, í ítalskri endurreisnarhöll með suður evrópskt landslag í bakgrunni. Gabríel erkiengill krýpur á öðru kné frammi fyrir Maríu, er í efnismiklum dökkbleikum kufli sem er meira eins og kjóll og hefði sómt sér á hvaða drottningu sem er. Og hann er með brúna fallega slöngulokka sem leggjast yfir herðarnar hansog úr bakinu koma fagurlega mótaðir vængir sem tjá auðvitað himneska tengingu og hlutverk engilsins. Og þessi mynd minnir okkur á að vitaskuld vitum við ekkert um af hvaða kyni englar Guðs eru. Líklegast ekki af neinu kyni sem við þekkjum!

En Botticelli lætur Maríu, sem stendur á virðingarpalli, hneigja höfuð sitt í átt engilsins, á meðan hún hlýðir á boðskap hans, með kyrran og friðsælan svip á andlitinu. Hún hefur engar áhyggjur af því sem er framundan. Engann ótta yfir því hvað yrði um hana. Engar áhyggjur af því hvað fólk myndi segja. Hún réttir fram höndina, eins og hún sé að blessa engilinn. Af myndinni að dæma tekur hún fréttunum óvæntu af æðruleysi og hlýðni. Sjá, ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orðum þínum.

Barn breytir heiminum

Þessi upphafna og fallega mynd af hlýðnu og undirgefnu Maríu, birtir túlkun á sögunni og ákveðinn boðskap um hlutverk og stöðu kvenna sem okkur er ekkert svo framandi enn í dag. Boðskap sem gerir Maríu að fyrirmynd, fyrst og fremst af því að hún er hlýðin og þannig séð viljalaust verkfæri sem tekur við hlutverki sem hún hefur ekki valið sér og hefur ekkert með að segja sjálf.

En sú mynd virðist fjarri þegar frænkurnar sem mættust í litla fjallaþorpinu höfðu faðmast og knúsast, talað saman um það sem þær höfðu upplifað og kannsi látið dæluna ganga um morgunógleði, yfirgengilega þreytu og súper skapsveiflur, hluti sem gjarnan fylgja því að ganga með barn. Þá standa þær saman, myndugar, sterkar konur, vel meðvitaðar um hlutverk sitt sem þær hafa verið valdar til að gegna, og bara þær geta gegnt.

Og María mælir þessi orð, sem eru eins og spádómur um hlutverk barnsins sem hún gengur með, hún slær tóninn fyrir líf hans og starf, því hún skilur þýðingu þess sem á sér stað.

 Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.

Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum

og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.

Valdhöfum hefur hann steypt af stóli

og upp hafið smælingja,

hungraða hefur hann fyllt gæðum

en látið ríka tómhenta frá sér fara.

Hér er engin undirgefni og viljalaus hlýðni heldur róttæk – og kannski svolítið óvænt – sýn á Guð sem stendur með hinum valdalausu og hungruðu, og réttir hlut þeirra í ranglátum heimi. Og hér birtist líka hin mystíska trú, sem er vettvangur hins óvænta í lífinu – sem er hvorki einhliða eða einfalt heldur djúpt og breytt og flókið. Allt lífið höldum við áfram að vaxa og dafna í trúnni þegar við leyfum okkur að sleppa því sem kreppir og opnum fyrir hið óvænta – sem umbreytir, styrkir og nærir.

Hið óvænta birtist í lífi Maríu, Elísabetar og Hönnu, og hið óvæntasta af öllu er að þannig varð Guð manneskja, í barninu Jesú sem fæddist í Betlehem og varð maðurinn sem breytti heiminum.