Hlustum og bjóðum samfylgd!

by Mar 11, 2015Prédikun

Í dag ætla ég að tala um konurnar í Biblíunni, samlíðan og Alþjóðlegan baráttudag kvenna sem er haldinn hátíðlegur í dag.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég var lítil stúlka fékk ég stundum að heimsækja ömmu mína í Bókabúðina. Amma var nefninlega bóksali. Þessi búð var á litlum skólastað í sveit á Norðurlandi, en fyrir mér var þetta samt sem áður stærsta og merkilegasta bókabúð landsins. Þarna var allt milli himins og jarðar til sölu. Vefnaðarvörur, fatnaður, leikföng, skrautmunir og jú – auðvitað talsvert af bókum líka. Þetta var reyndar alls ekki stór búð – en fyrir litla stúlku var hún stór og hrein ævintýraveröld. Við systur fengum stundum að aðstoða ömmu í búðinni, setja bækur og varning í poka og jafnvel verðmerkja.

Búðarkassann mátti hins vegar enginn snerta nema amma sjálf. Á honum var nefnilega sérstakt kerfi sem enginn skildi nema amma. Ég heyri ennþá skröltið í reiknivélinni hennar ömmu. Jafnvel tikkið í hinu heilaga musteri – búðarkassanum sjálfum. Ég sé ömmu fyrir mér tala við viðskiptavinina af sinni alkunnu snilld, sýna þeim virðingu og ekki síst að hlusta á öll þeirra hjartans mál. Allt sem hvíldi á viðskiptavinunum var hægt að ræða í bókabúðinni. Bókabúðin hennar ömmu var nefnilega eins konar félagsmiðstöð þar sem boðið var upp á ókeypis sálfræðiþjónustu í formi hlustunar og kaffisopa. Og svo sat líka eitt stykki afi gjarnan á stól úti í horni, flutti bókmenntagagnrýni (reyndar óbeðinn) og sagði kúnnunum vel skreyttar skemmtisögur til enn frekari upplyftingar.

Ásamt þessu sinnti hún amma mín heimilisstörfum af svo mikilli nákvæmni að nánast enginn gat hjálpað henni við þau. Því þrátt fyrir að amma hafi verið nýmóðins kona á margan hátt, sem fór gjarnan ótroðnar slóðir, þá var hún líka fastheldin á hefðir.

Það að vera fastheldin á hefðir þarf alls ekki alltaf að vera slæmt. Hlutverk hefða er ekki bara það að tengja okkur við aðra einstaklinga innan hópsins heldur líka að tengja okkur við gengnar kynslóðir. Hefðir tengja okkur líka gjarnan við ákveðnar minningar. Jólatréð er alltaf haft í þessu ákveðna horni því þannig hefur það alltaf verið. Jólaserían er glær en ekki rauð – annars verða jólin ekki söm o.s. frv. Hefðir geta hins vegar líka verið slæmar og þá einkum þegar þær eru skoðaðar í samhengi við mannlegar þarfir og skyldur því þegar hefðir eru á einhvern hátt farnar að brjóta gegn mannréttindum okkar og frelsi – eru þær ekki af hinu góða.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, en áttunda mars ár hvert er sá dagur haldinn hátíðlegur. Árið 1910 var haldin alþjóðleg ráðstefna Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna undir nafninu Vinnandi konur í Kaupmannahöfn. Þar var lögð fram sú tillaga að stofnaður yrði alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Þá var í upphafi ákveðið að dagurinn skyldi haldinn hátíðlegur á sunnudegi en ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að það var eini frídagur verkakvenna í þá daga. Fyrst um sinn voru baráttumál kvenna á þessum degi kosningaréttur kvenna en í ár höldum við Íslendingar upp á að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt hér á landi. – En hvernig getum við tengt Alþjóðlegan baráttudag kvenna við Biblíuna og Jesú? Hvað segir Biblíuhefðin okkur um konur og hvað finnum við í Biblíunni um konur sem getur mögulega stutt við baráttu þeirra gegn misrétti, ofbeldi og kúgun?

Bæði í Nýja og Gamla testamentinu má finna frásagnir af konum. Þær eru hins vegar misjafnar og þær þarf að túlka og matreiða – eins og raunar alla aðra forna texta. Biblían er hlaðin textum sem nauðsynlegt er að skyggnast á bak við til að geta nýtt sér sem best. Textarnir tala ekki endilega beint til okkar heldur eru þeir þannig gerðir að þeir gera kröfu um að við veltum þeim fyrir okkur. Sú aðferð leiðir nefnilega oftar en ekki til þess að við skoðum okkur sjálf um leið – þannig má segja að sálfræði Biblíulestursins virki líka best.

Í Nýja testamentinu má finna frásagnir af mörgum áhugaverðum konum en þar má fyrst nefna að fyrstu upprisuvottarnir voru konur. Það voru konur sem fyrstar komu að gröf Jesú og sáu að hún var tóm og þær vitnuðu fyrstar um að hann væri upprisinn. Þá má einnig finna sögur af því í Nýja testamentinu þegar Jesús ræddi við konur á almannafæri og treysti þeim fyrir hlutverki sínu – en með þessu var Jesú að ganga þvert á allar hefðir þess tíma.

Í Gamla testamentinu í fyrri Konungabók segir m.a. frá Huldu sem var talin spekingur mikill og gjarnan kölluð „fyrsti guðfræðingurinn“.

Eins og við flest vitum eru þetta þó ekki einu sögurnar sem við finnum um konur í Biblíunni því þar er líka aragrúi af kúgunarsögum sem segja frá hrottalegu ofbeldi gegn konum. Þar má líka finna frásagnir þar sem konan er eign karlmannsins og konur þannig sýndar sem ófrjálsir einstaklingar. Ekki þarf að leita lengra en í boðorðin til að finna slíka texta. Jesús rís hins vegar alltaf gegn slíkri hefð og túlkar hana í þágu manneskjunnar. Jesús var nefnilega jafnréttissinni sem sýndi ekki afskiptaleysi eða skeytingarleysi heldur samlíðan með þeim sem fundu til – og voru kúgaðir á einhvern hátt.

Guðspjallatexti þessa þriðja sunnudags í föstu er úr Jóhannesarguðspjalli og fjallar um orðaskipti Jesú við Gyðinga en þeir neituðu að trúa því að Jesús væri sonur Guðs. Þeir þvertóku fyrir boðskap hans og Jesús er raunar svolítið reiður í þessum texta. Ástæðan er m.a. sú að Gyðingar sýndu Jesú þarna ákveðið skeytingarleysi með því að vilja ekki sjá aðrar hliðar á málunum en sínar eigin. Tilhneygingu sem er auðvelt að tengja við mannlegan veruleika.

Nú er margt sem bendir til þess að afskiptaleysi sé vaxandi vandamál í okkar samfélagi. Fólk gengur hljóðlega framhjá grunsemdum sem vakna um ofbeldi eða annarskonar vanda hjá öðrum manneskjum. Virðing fyrir friðhelgi heimilisins er þá gjarnan notuð sem afsökun fyrir því að blanda sér ekki í málin. Þá kemur óttinn við að ógna eigin öryggi oft í veg fyrir að gripið sé inn í aðstæður þar sem grunur leikur á að ekki sé allt með felldu. Þessi ótti er eðlilegur, og getur átt rétt á sér, en við megum ekki láta hann hindra okkur til góðra verka.

Það er hins vegar vert að gefa gaum að því að samlíðan þarf ekki endilega að felast í því að risið sé upp gegn óréttlætinu með róttækum hætti sem getur ógnað, heldur getur samlíðan líka falist í því að hlusta og bjóða samfylgd. – Láta sér ekki vera sama um náungann. – Þar er Kristur góð fyrirmynd og í því fólst líka spjallið og kaffisopinn sem amma mín bóksalinn bauð upp á forðum daga í bókabúðinni sinni norður í landi.

Alveg eins og Jesús mætti fólki með samfylgd og samlíðan, þannig skulum við hlusta eftir því sem aðrir hafa að segja okkur og við skulum taka eftir samferðafólki okkar. Þannig vinnum við á móti skeytingarleysinu sem vill stundum ná yfirhöndinni í samfélaginu.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen