Samvera sjálfboðaliða

by Mar 11, 2015Blogg

Í Laugarneskirkju leggja margir hönd á plóg og verja tíma sínum og kröftum til að efla samfélagið. Í vikunni kallaði sóknarnefndin okkar alla sjálfboðaliða sem áttu heimangengt til notalegrar samveru í safnaðarheimilinu þar sem boðið var upp á dýrindis kjötsúpu og súkkulaðiköku með rjóma!

Það var góður og vinalegur andi sem ríkti í húsinu og frábært að hitta alla í einu – félaga úr kirkjukórnum, æskulýðsfélögunum, eldriborgarastarfinu, messuþjónahópum, kvenfélaginu og Hátúnsþorpinu!

Aðalbjörg formaður sóknarnefndar bauð fólk velkomið með þessum orðum:

Laugarneskirkja er kirkja sem hefur rými fyrir allt fólk. Í verkum okkar fylgjum við þeim boðskap Jesú Krists að elska náungann eins og okkur sjálf og að koma fram við samferðafólk okkar eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Kirkjan okkar er samfélag fólks, sem hefur ákveðið að verja tíma sínum og kröftum í að leggja gott til samferðafólks síns. Laugarneskirkja er við öll og það eru þínir kraftar – já þínir! – sem gera kirkjuna okkar og starfið hér að því sem það er.