Valdhöfum hefur hann steypt af stóli

by Mar 19, 2015Sunnudagurinn

Við höldum upp á boðunardag Maríu á sunnudaginn með messu og sunnudagaskóla í Laugarneskirkju kl. 11. Samveran einkennist af fagurri tónlist og íhugun um undrið þegar Guð vitjar manneskjunnar og gefur henni hlutverk í lífinu.

Sr. Kristín Þórunn prédikar og þjónar ásamt messuþjónum og tónlistin er í höndum Arngerðar Maríu tónlistarstjóra og Nathalíu Druzin Halldórsdóttur söngkonu.

Í tilefni dagsins hlýðum við á nokkrar perlur tónbókmenntanna sem eru helgaðar Maríu Guðsmóður, s.s. Ave María eftir Sigvalda Kaldalóns, Ave María eftir Schubert og Ave María eftir Caccini.

Sunnudagaskólagengið er hresst að venju og fremur hressa og nærandi samveru með börnunum.

Kaffi og djús eftir samveru. Vertu innilega velkomin(n) í Laugarneskirkju á sunnudaginn.

Hér er guðspjall dagsins, lofsöngur Maríu:

Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.
(Lúk 1.46-56)