Eldri borgarar grípa í spil og fara í vorferð

by Apr 28, 2015Blogg

Það er vorfiðringur í eldri borgurunum sem láta kuldatíð ekki slá sig út af laginu. Næsta fimmtudag er hefðbundin samvera sem hefst með hádegisbænum kl. 12, heilnæmri súpu að þeim loknum og kl. 14 verður sest niður yfir félagsvist. Umsjón hefur Ingibjörg Stefánsdóttir.

Að hálfum mánuði liðnum er uppstigningardagur og þá er að vanda mikið um dýrðir. Messa kl. 14 þar sem kvartettinn Kvika syngur og Ilmur Kristjánsdóttir leikkona flytur ræðu. Messukaffið á eftir er í höndum kór Laugarneskirkju og verður veglegt.

Fimmtudaginn 28. maí er svo komið að vorferð eldriborgarastarfsins. Fararbæn með blessun er í kirkjunni kl. 12, svo er það súpan, en kl. 13 er lagt af stað í langferðabifreið áleiðis út fyrir borgarmörkin. Komið við á Korpúlfsstöðum þar sem leiðsögn býður hópsins, og svo verður haldið upp í Mosfellsdal og Mosfellskirkja skoðuð. Nánar auglýst síðar!