Flóttafólk er flott fólk

by Apr 22, 2015Blogg

Í Laugarneskirkju eru haldnar alþjóðlegar bænastundir sérstaklega fyrir flóttafólk sem bíður eftir meðferð og lausn sinna mála í kerfinu. Bænastundin, sem fer fram á ensku, er byggð upp á samtali, söng, lestri og fjölbreyttri bænagjörð.

Það er Laugarneskirkja og prestur innflytjenda sem standa að þessum stundum sem hafa fengið yfirskriftina “Seekers’ Prayer Meetings” og fara fram kl. 11 á miðvikudögum. Sr. Toshiki Toma hefur lengi unnið með flóttafólki og þekkir vel til aðstæðna þess. “Það er fjölbreyttur hópur flóttafólks á Íslandi sem er mjög ólíkur innbyrðis” segir Toshiki. “Sumir í þessum hópi hafa þurft að bíða lengi eftir úrlausn sinna mála, og það getur tekið virkilega á. Fólki með kristinn bakgrunn hefur fjölgað í hópi flóttamanna. Það er dýrmæt þjónusta að bjóða þau inn í starf safnaðar eins og Laugarneskirkja gerir.”

Sr. Kristín Þórunn sóknarprestur í Laugarneskirkju segir að stundirnar gagnist fyrst og fremst þeim sem eru búsettir í Reykjavík. “Við vitum að huggun er manni mönnum að og það getur skipt sköpum á álagstímum í lífinu að hitta annað fólk og vera mætt af virðingu og hlýju. Á bak við tölur og fréttir af flóttafólki og hælisleitendum eru einstaklingar sem koma úr erfiðum aðstæðum en eiga drauma og von um betra líf á Íslandi. Við viljum reyna að koma til móts við þetta fólk og vera til staðar eins og við getum.”