Fyrsta sumarmessan

by Apr 24, 2015Sunnudagurinn

Á sunnudaginn komum við saman kl. 11 í birtu páskanna og sumarsins sem nú er hafið. Í messunni þjónar Sr. Árni Svanur Daníelsson ásamt messuþjónum og sr. James Estes frá United Church of Christ, sem ávarpar söfnuðinn okkar með kveðju frá kirkjunni sinni vestanhafs.

Sönghópur kvenfélagskvenna undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur syngur sumarlega og skemmtilega sálma úr Sálmum 2013.

Sunnudagaskólinn verður á sínum stað undir stjórn Hjalta Jóns og félaga.  Kaffi og djús eftir samveru.

Guðspjall dagsins er hinn þekkti kafli úr Jóhannesi 14:

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“
Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“
Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna.