Góðir grannar

by Apr 1, 2015Blogg

Framtíðargrannar er hópur fríðra kvenna í Laugarnesinu sem hafa að markmiði að gefa af sér, fegra mannlífið í hverfinu og skemmta sér um leið. Í áraraðir hafa þær staðið fyrir fjáröflun í formi opinnar samveru kvenna þar sem allur ágóði rennur síðan í velferðarmál.

Í lok mars héldu þær dömuboð á Café Flóru, þar sem fjöldi kvenna kom saman og átti glaða og gefandi stund. Sérstakur gestur var Árelía Eydís sem talaði um vorverkin í lífinu.

Í dag komu svo fulltrúar grannanna góðu færandi hendi og afhentu Laugarneskirkju afrakstur dömuboðsins. Honum verður ráðstafað með aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar og verður notaður til að styrkja fjölskyldur til uppbyggjandi upplifunar.

Þess má geta að Framtíðargrannar eiga rætur sínar í kirkjustarfinu í Laugarneskirkju en þær kynntust flestar á mömmumorgnum í kirkunni fyrir u.þ.b. tveimur áratugum.

Í hópnum sem kom frá Framtíðargrönnum voru Elín Bára, Auður Ólafs, Anna Björg og Magnea, en fulltrúar Laugarneskirkju voru sóknarprestur, formaður og gjaldkeri sóknarnefndarinnar, Kristín Þórunn, Aðalbjörg Stefanía og Hörður.