Pössum tengslin

by Apr 12, 2015Prédikun

Kæru fermingarbörn, innilega til hamingju með daginn ykkar. Það hefur verið heiður og ánægja okkur Kristínu Þórunni að fylgja ykkur í vetur. Í allan vetur, sem ætlar greinilega aldrei að enda, hafið þið sett mark ykkar á allt kirkjustarfið hér. Þið hafið upplifað og tekið með beinum hætti þátt í kirkjuárinu, stærstu hátíðunum, með þeirra helgi og hátíðleika og eins þessum minni, hversdagshátíðum, sem felast í því að fara í leiki eins og ávaxtakörfuna eða sitja hér og eiga kyrrðina saman í bæn. Það er kannski klisja að segja að tíminn hafi liðið hratt, en vá – hvað tíminn hefur liðið hratt!

Og nú erum við hingað komin, sjálfur fermingardagurinn. Ef þið horfið út í salinn sjáið þið fólkið ykkar, fólkið sem er hingað komið til að fagna með ykkur í dag þegar við fögnum saman lífi ykkar og möguleikum.

Fermingin felur í sér að við fögnum því ekki aðeins að þið hafið valið að tilheyra kirkjunni, heldur fögnum við því einfaldlega að þið eruð til, nákvæmlega eins og þið eruð. Við fögnum því að þið eruð dýrmæt, óháð öllu. Óháð öllu sem á undan er gengið og öllu því sem framundan er.
Í guðspjallinu sem var lesið áðan heyrðum við af því þegar Jesús birtist lærisveinum sínum og eyðir með þeim tíma. Þeir borða saman, fisk og brauð, sitja saman, eru saman. Í frásögninni er dregin upp mynd af stund sem vinir áttu. Tilfinningarnar sem hafa bærst um með Jesú og vinum hans hafa eflaust verið margskonar og hver og einn hefur upplifað þetta á sinn hátt. Hvað ætli það hafi verið sem hafi lifað mest í minningunni eftir þennan dag með þessum vinum? Kannski hlý gola í lofti, kannski lyktin af steiktum fisk. Líklegast hefur umvafið hverja minningu tengsl vinanna sín á milli. Við mannfólkið erum tengslaverur, við erum fædd til þess að lifa í tengslum.
Þessi tengsl eru margskonar, við gegnum ólíkum hlutverkum í lífum okkar, í lífum fólksins okkar og við eigum í minningum okkar oft svipmyndir af þessum tengslum.

Já, það er nefnilega merkilegt hvað við munum.
Ég man ekki mjög margt frá fermingardegi mínum. Ég man að ég var svolítið stressaður yfir því að taka í höndina á öllu þessu fólki og þakka fyrir mig, þetta var svolítið yfirþyrmandi – en skemmtilegt.

Sú minning sem hefur í gegnum árin lifað mest með mér er af einu korti sem ég fékk. Það var frá langaömmu minni og langaafa. Ég man eftir handskriftinni, þar sem þau skrifuðu hve leitt þeim þætti að hafa ekki getið verið með mér á fermingardaginn þar sem ég fermdist austur á landi en þau voru í Reykjavík og ekki í stakk búin til þess að ferðast. Tónninn í kortinu var sá að það var greinilegt að þau hefðu virkilega velt því fyrir sér að leggja á sig ferðina, þó það væri löngu orðið svo að langaamma mín ætti ekkert með það að gera að ferðast. Ég fann að þau vildu vera með mér.

Enn í dag rifja ég þetta reglulega upp með sjálfum mér og þessa sögu hef ég sagt oft, meira að segja áður hér. Vonandi njótið þið þess kæru vinir að eiga þennan dag og fá að upplifa hann með ykkar hætti, skapa ykkar minningar og vonandi upplifið það það öll og finnið inn að beini að þið eruð dýrmæt, að þið eruð elskuð og að þið eruð mikilvæg.

Þið eruð meðal annars mikilvæg fyrir kirkjuna. Því vonandi lifir sá lærdómur með ykkur eftir veturinn að það eruð þið sem eruð kirkjan. Kirkjan er ekki misþægilegir kirkjubekkirnir eða skáparnir undir sálmabækurnar, heldur fólkið, samfélagið sem við eigum saman sem sækir næringu sína alltaf í sömu uppsprettu; kærleika Guðs.

Nú í dag gangist þið við því hlutverki kæru vinir að gæta þess að kirkjan gleymi ekki tilgangi sínum; að starfa saman og hlúa að þeim kærleika. Að passa upp á tengslin.
Í hverjum degi mætir okkur tækifæri til að rækta tengsl okkar, við okkur sjálf, við hvort annað og við okkar trú. Leiðangurinn er rétt að hefjast og við óskum ykkur gæfu á öllum ykkar vegum þar sem þið haldið áfram að máta ykkur við allt þetta líf. Það er spennandi og verðugt verkefni að halda áfram að þroskast og verða sú manneskja sem manni er ætlað að verða, leiðangur sem endar aldrei. Í því samhengi vil ég enda hér á orðum Jesú sem hafa sömu dularfullu fegurð og sanna tón nú og fyrir öllum þessum árum síðan:

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.
Amen.