Ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart….

by May 15, 2015Sunnudagurinn

Enn fáum við að upplifa íslenska vorið, sem einkennist fyrst og fremst af birtu – þótt enn sé ekki mjög hlýtt. Í lexíu næsta sunnudags segir í bók Sakaría spámanns, um daginn sem Drottin Guð kemur, að þá verði ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart. Betri lýsing á íslenska vorinu er vandfundin.

Við ætlum að fagna þessari birtu í messu og barnastarfi á sunnudaginn kl. 11. Sr. Kristín Þórunn prédikar og þjónar ásamt messuþjónum, kór kirkjunnar syngur undir stjórn Arngerðar Maríu og Hjalti Jón gleður börnin með söng og sögum.

Kl. 13 er síðan guðsþjónusta í Félagsheimili Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Hátúni 12. Þar slæst í hópinn Kristinn Guðmundsson meðhjálpari sem les guðspjallið og leiðir trúarjátningu safnaðarins, Guðrún Kr. Þórsdóttir djákni og Elma Atladóttir söngkona.

Þetta er síðasti sunnudagur eftir páska, því næsta helgi er hvítasunnan. Við vonumst til að sjá þig í Laugarneskirkju um helgina.