Fermingar 2016

by May 20, 2015Blogg, Forsíðufrétt

Fermingarstarfið í Laugarneskirkju er fyrir alla sem vilja taka þátt í skemmtilegri og gefandi dagskrá, læra um lífið, menninguna og kristna trú, uppgötva leynda hæfileika og rækta góð og gefandi tengsl.

Ef þú ert fæddur eða fædd árið 2002 og vilt fermast í Laugarneskirkju getur þú skráð þig á vefnum til að taka þátt í fermingarstarfinu okkar og líka valið hvaða dag þú vilt fermast.

Þessir dagar eru í boði næsta vor: 

  • 10. apríl kl. 11.
  • 21. apríl kl. 11 (sumardagurinn fyrsti).
  • 15. maí kl. 11 (hvítasunna).
  • 5. júní kl. 11 (sjómannadagurinn).

Fermingarstarfið byrjar með fundi í Laugarneskirkju laugardaginn 29. ágúst kl. 11-12.30 þangað sem við boðum bæði foreldra og börn. Síðan hittumst við reglulega í kringum verkefni og fjölbreyttar samverur.

Við leggjum áherslu á gott samstarf við heimili barnanna og boðum aðstandendur á nokkra fundi yfir veturinn. Eins hvetjum við fjölskyldur til að sækja guðsþjónustur og helgistundir í sameiningu og gera kirkjuferðir þennan vetur að gæðastundum og góðri samveru.

Farið verður í Vatnaskóg 24.-25. september. Tímasetningin er ákveðin í samráði við skólastjórnendur Laugalækjaskóla en foreldrar þurfa að biðja um frí fyrir þau börn sem fara á fermingarbarnamótið.

Kostnaður

Fræðslugjald og ferming kostar kr. 14.307 skv. gjaldskrá Innanríkisráðuneytisins. Við það bætist kr. 2.000 sem er leiga á fermingarkyrtlum. Arion banki annast innheimtu og mun krafa upp á kr. 16.307 birtast í heimabanka greiðanda. Það er gjald fyrir fræðslu og hreinsun og leigu á fermingarkyrtlum, sem kvenfélagið sér um.

Ferðin í Vatnaskóg er niðurgreidd af kirkjunni en hvert barn þarf að greiða kr. 8000, sem greiðist við brottför.

Ekki þarf að kaupa sérstaka kennslubók í fermingarstarfinu en allir krakkar fá afhent Nýja testamentið við upphaf vetrarins.

Við hlökkum til að sjá þig í fermingarstarfinu í Laugarneskirkju!

Kristín Þórunn og Hjalti Jón