Laugarnes á ljúfum nótum

by May 4, 2015Sunnudagurinn

Vorhátíðin Laugarnes á ljúfum nótum er á sunnudaginn kemur 10. maí kl. 14-16. Hátíðin verður í og við Laugarneskirkju og að henni standa fjöldi aðila, sem allir hafa sama markmið – að gera lífið í hverfinu okkar betra, öruggara og auðugra fyrir íbúa á öllum aldri. Skólar, frístundastarf, foreldrafélög, leikskólar, félagsstarf, skátar, íþróttafélög, félagsmiðstöðvar, lögreglan, hljómsveitir, hverfaráðið, tónlistarstarfið og kirkjan – allir taka höndum saman og leiða saman hæfileikaríkt fólk sem skemmtir og gleður hvert annað þennan eftirmiðdag.

Atriði og viðburðir eru fjölmargir. Úti við verður hægt að fara í hoppukastala, horfa á fimleika, skoða mótorhjól, kíkja á Sögubílinn, prófa klifurvegg, fara í skylmó og knattþrautir, spila mannlegt fótboltaspil, fá andlitsmálningu og kaupa gómsætar veitingar eins og pylsur, vöfflur og candyfloss. Það verður hægt að hlusta á hina frábæru Skólahljómsveit Austurbæjar og Kór Laugarnesskóla syngja inn sumarið og svo verða hinar ótrúlegu flottu unglingahljómsveitir Neon og Helíum á staðnum.

Inni í safnaðarheimili verður flóamarkaður, ljósmyndasýning, listsýning og glæsileg dansatriði, og sannkölluð kaffihúsastemning þar sem hægt verður að setjast niður í rólegheitum og njóta. Í kirkjunni sjálfri verður boðið upp á eldhressan sunnudagaskóla, framsækna rokktónlist og hefbundna kórtónlist.

Eins og sjá má er eitthvað í boði fyrir alla á vorhátíðinni okkar, sem við eigum öll saman og njótum saman. Allir eru velkomnir og það kostar ekkert inn eða að njóta viðburðanna – en betra er að taka með sér aura til að styrkja foreldrafélög skólanna sem selja vöfflur og pylsur ofan í liðið.

Vinsamlegast athugið að guðsþjónusta verður ekki þennan dag kl. 11 heldur kemur söfnuðurinn saman í eftirmiðdaginn og nýtur samfélagsins þar.

Munið: Sunnudagurinn 10. maí kl. 14-16. Öllum opið og enginn aðgangseyrir.