Maður eftir mínu hjarta

by Aug 25, 2015Blogg

Öllum sem fæðast er gefið sitt eigið nafn, þetta er nafnið sem greinir að einstaklinginn frá öðrum, það ert bara þú sem færð nafnið þitt og þú gengur undir því allt lífið.

Svo berum við líka föður- eða móðurnöfn, í mörgum löndum er um að ræða fjölskyldunöfn sem allir í ættinni bera. Þannig að fyrsta nafnið þitt greinir þig frá öðrum einstaklingum en eftirnafnið þitt staðsetur í hvaða fjölskyldu þú ert og hverjum þú tilheyrir.

Mig langar til að tala aðeins um nafnið sem Davíð Hardi valdi sér í skírninni í dag. Hardi hefur borið nafnið sitt alla æfi en hann tilheyrir þjóð sem heitir Kúrdar og er í raun landlaus þjóð. Kúrdar dreifast til nokkurra landa í miðausturlöndum, Tyrklands, Sýrlands, Íran og Íraks og eru alls staðar minnihlutahópur sem er undirokaður á margan hátt.

Í dag þegar Hardi tók skírn valdi hann sér að taka nafnið Davíð úr hefð Biblíunnar en Davíð konungur er auðvitað ein áhugaverðasta persóna Biblíunnar – og þær eru ansi margar!

Davíð er risastór persóna í sjálfsmynd bæði kristinna og gyðinga. Við lesum ekki bara um ævintýralega viðburði í lífi hans í Gamla testamentinu, eins og bardagann við Golíat, samskiptin við Sál konung, kærleikssambandið við Jónatan, fjölskylduhörmungar og flókið ástarlíf, heldur tjá sálmarnir sem kenndir eru við hann, kjarna guðstrúar kristinnar kirkju og eru uppskrift fyrir andlega iðkun kristinna manna.

Það er því ekki skrítið að Páll postuli grípi til þess að tala um Davíð konung þegar hann var staddur í Antíokkíu og vildi boða fagnaðarerindið um Jesú sem son Guðs. Hann boðaði frammi fyrir gyðingum og öðrum sem þekktu söguna um Davíð konung og þess vegna meikaði sens fyrir Pál að vísa til köllunar Davíðs til að verða konungur yfir Ísrael. Við munum líka að það er iðulega vísað til Jesú í guðspjöllunum sem sonar Davíðs. Það segir mikið um stöðuna sem Davíð hafði í hjarta smáu, hersetnu þjóðarinnar í botni Miðjarðarhafsins.

Og þetta sagði Páll um Davíð: “Þegar Guð hafði sett hann (Sál) af hóf hann Davíð til konungs yfir henni. Um hann vitnaði hann: Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gera mun allan vilja minn.”

Þetta er sterk framsetning á því sem við sem limir á líkama Krists erum kölluð til að vera. Guð á að geta sagt um hvert og eitt okkar, þegar hann horfir á okkur: Þetta ert þú, maður eftir mínu hjarta, sem gerir allan vilja minn. Þetta er a.m.k. það sem við eigum að leitast við að vera. Og þá er svo gott að eiga fyrirmyndir eins og Davíð sem lyftir upp því sem er mikilvægt í andlega lífinu.

Mig langar að nefna nokkur slík atriði sem gera Davíð að fyrirmynd í trúarlífinu.

Fyrst getum við skoðað Davíðssálm 119 sem við heyrðum áðan. Þar kemur fram að Davíð gerði ráð fyrir orði Guðs í lífi sínu: Ég íhuga fyrirmæli þín og ég vona á orð þitt, eru frasar sem koma þar fyrir aftur og aftur.

Orðið í lífi Davíðs styrkir hann gegn því að syndga og skaða sjálfan sig og aðra: “Ég geymi orð þín í hjarta mínu svo að ég syndgi ekki gegn þér.” Og í erfiðleikum verndar orðið hann: “það er huggun mín í eymd minni að orð þitt lætur mig lífi halda.” Og það gefur honum frið í hjartað: “Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt.”

Hérna eru sterkir punktar til að íhuga, t.d. þessir: Hvernig styrkir orð Guðs okkur í freistingum og gegn því að syndga? Hvernig er orð Guðs vernd í erfiðleikum sem við upplifum í okkar eigin lífi? Hvernig gefur orð Guðs okkur frið í hjarta?

Davíð er líka fyrirmynd í bæninni og hann lifði ríkulegu bænalífi. Einn sálmur hans byrjar með þessum orðum: “Ég elska Drottin af því að hann heyrir grátbeiðni mína. Hann hneigði eyra sitt að mér þegar ég ákallaði hann.”

Á öðrum stað segir hann: ”Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.” Hér lesum við vitnisburð þess sem hefur reynt að í bæninni erum við í nærveru hins heilaga.

Hér eru líka áhugaverðir punktar til að heimfæra upp á okkar eigið andlega líf. Hvað upplifum við þegar við áköllum Drottin í einlægni? Getum við notað bænina til þess að grátbiðja um hjálp í neyð eða ákallað Drottin í aðstæðum sem koma upp?

Annað sem gerir Davíð manninn sem Guð nefnir að hann sé maður eftir hjarta hans og sem geri vilja Guðs, eru gildi vináttu og bræðralags sem Davíð lyftir upp og leggur áherslu á. Það kemur bæði fram í reynslu hans af krafti vináttunnar sem hann upplifði með Jónatan og í sálminum sem byrjar svona: “Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman.”

Vinátta og samstaða er líka þema sem við sjáum í orðum Jesú þegar hann talar um lærisveina sína og samfélag þeirra sem trúa á hann, og biður “að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér”.

Hér eru líka góðir punktar til að íhuga, hvernig förum við með gæði vináttunnar, kærleikans og samstöðunnar í okkar lífi og í samfélaginu okkar. Nennum við að leggja á okkur smá aukabyrði til að hlúa að friði og samstöðu? Tökum við stöðu með mannréttindum og gegn yfirgangi jafnvel það kosti okkur tekjur af makrílsölu um stundarsakir? Tökum við stöðu með þeim sem hallað er á og eiga undir högg að sækja, eins og þeim milljónum flóttafólks sem lifir á jörðinni í dag?

Allt þetta og miklu fleira tengist nafninu sem Hardi valdi sér í dag þegar hann svaraði kallinu til að skírast og verða hluti af líkama Krists á jörðu. Við tökum á móti honum í fjölskylduna okkar og lofum að biðja með honum og fyrir honum í hverju því hlutskipti sem Guð lætur honum að höndum bera. Takk fyrir að vera hér og vera með.

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.