Íhugun & bæn á mánudagsmorgnum í Laugarneskirkju

by Sep 13, 2015Blogg

Í vetur er Laugarneskirkja öllum opin á mánudagssmorgnum milli kl. 7.30-8.30 þar sem aðstaða er fyrir persónulega bæn og íhugun.

Það er fátt mikilvægara í þessu lífi en að gefa sér tíma til að rækta kyrrðina með sjálfum sér og þó er fátt sem er jafn auðvelt að yfirsjást í amstri hversdagsins.  Bæn og íhugun eru farvegir sem manneskjan hefur nýtt sér frá örófi alda til að tengjast sjálfri sér, sínum æðri mætti, og hlúa að andlegri sem og líkamlegri heilsu sinni. Í gegnum aldirnar hefur fjöldinn allur af leiðum til hugleiðslu og bænar sprottið upp sem eiga ólíkar rætur, margar hverjar trúarlegar en aðrar ekki. Allar eiga leiðirnar það þó sameiginlegt að veita manneskjunni næringu sem nýtist henni í hversdagslífi sínu.

Á mánudögum og miðvikudögum stendur Laugarneskirkja opin milli 7:30 – 8:30 fyrir bæn og íhugun, þá er hverjum sem er velkomið að mæta og rækta íhugun og/eða bæn í kyrrð á sinn hátt. Hver og einn getur mætt milli 7:30 – 8:30 þegar honum hentar fengið sér sæti þar sem viðkomandi vill og tekið eins langa eða stutta stund í íhugun og/eða bæn eins og sér hentar, eftir sínum leiðum.

Í framhaldi er hægt að rölta úr kyrrð kirkjunnar niður stigann til safnaðarheimilisins og þiggja kaffi- eða tebolla í góðu samfélagi. Upplifunin af íhugun og bæn magnast gjarnan upp þegar henni er deilt með öðrum þar sem iðkendur upplifa gjarnan sterkar tilfinningar samkenndar og styrk sem dýpkar andlegt líf einstaklinganna.

Þetta er eins og margt skemmtilegt; enn skemmtilegra þegar maður deilir því með öðrum á einhvern hátt.  Umsjón og utanumhald er í höndum Hjalta Jóns Sverrissonar og sjálfboðaliða.

Verum velkomin í bæn og íhugun alla mánudagsmorgna milli 7:30-8:30.