Ungleiðtogadagur í Laugarneskirkju

by Sep 7, 2015Blogg

Síðastliðinn sunnudag, 6.september, komu ungleiðtogar Laugarneskirkju saman og áttu góðan dag. Fjórtán ungmenni á aldrinum 14-17 ára tóku þátt í deginum en ungleiðtogar Laugarneskirkju eru ómetanlegur þáttur af æskulýðsstarfi kirkjunnar þar sem þau aðstoða starfsfólk æskulýðsstarfsins í hverri viku við umsjón hópastarfs og koma að ýmsum viðburðum í kirkjunni.

Dagskráin hófst kl.13:30 þar sem hópurinn hittist út í íþróttahúsi Laugarnesskóla og skemmti sér í hinum klassíska Tarzan leik. Að því loknu var stokkið yfir í næstu götu í sund og í framhaldinu hittist hópurinn út í Laugarneskirkju. Eftir að hópurinn hafði hrist sig vel saman í hópeflisleikjum var fræðslustund sem Hjalti Jón hafði umsjón með þar sem ungmennin voru frædd um ýmislegt sem viðkemur starfi með börnum- og unglingum, meðal annars hvernig sé heillavænlegast að bera sig að í samskiptum, gildi þess að taka ábyrgð sína sem fyrirmynd alvarlega og mikilvægi þess að þekkja og virða mörk; sín eigin og annarra.

Að lokinni fræðslustund settu ungleiðtogarnir niður á blað hugmyndir fyrir starfið hér í Laugarneskirkju í vetur og endaði svo dagskráin á því að hópurinn snæddi dýrindis pizzur og kirkjudjús með í boðinu og um leið var settur í gang leikurinn sem tryggði karlalandsliðinu þátttökurétt á EM 2016.

Hreint ekki slæmur dagur!