Hrærum vatnið í Laugarneskirkju 23. október

by Oct 14, 2015Blogg

Það er mikið um að vera föstudaginn 23. október n.k. í Laugarneskirkju. Þá verður málþing og samvera, kl. 13-16 í tilefni af því að í ár eru 20 ár frá því að fyrstu djáknakandídatarnir útskrifuðust frá HÍ, í ár er líka 20 ára afmæli Djáknafélags Íslands og 50 ára vígsluafmæli Unnar Halldórsdóttur sem vígðist sem díakonissa, eða safnaðarsystir, til Hallgrímssafnaðar fyrsta sunndag í aðventu 1965.

Á málþinginu ætlum við að rýna í djáknaþjónustuna í kirkjunni í fortíð, samtíð og framtíð!

Fyrirlestur, örinnlegg, gjörningur, helgihald og sjónlistaverk sem tengjast efni dagsins.

Yfirskriftin er sótt í Jóhannes 5 í söguna af sjúka manninum i súlnagöngunum sem hafði beðið í áratugi eftir að komast ofan í heilandi vatnið eftir að engill Drottins hafði hrært það.

Hræringin í vatninu er ávísun á líf og lækningu – er það ekki hlutverk kærleiksþjónustunnar að “hræra vatnið” fyrir náunga okkar svo af hljótist líf og lækning?

Önnur tenging er að djáknaþjónustan “hrærir” upp í kirkjunni og þjónustunni. Hvað vill þjóðkirkjan gera með djáknana sina og hver er köllun þeirra í fjölmenningu og síbreytilegum veruleika?

Við ætlum að hræra vatnið í Laugarneskirkju 23. október kl. 13-16 og viljum fá þig með. Málþingið er öllum opið en sérstaklega djáknum, guðfræðingum, prestum og áhugasömum um kærleikserindi kirkjunnar.