Hversdagur og eplatré

by Nov 22, 2015Blogg

Það er skrítin stemning í Brussel, var haft eftir konu í fréttunum í gær. Lýst var yfir hæsta viðbúnaðarstigi í borginni af ótta við að hryðjuverk væru yfirvofandi, almenningssamgöngur stöðvaðar og fólk hvatt til að halda sig fjarri samkomum og helst vera heima hjá sér. Hryðjuverkin í París fyrir rúmri viku þar sem fólk var myrt á veitingastöðum og tónleikastað hafa ýft upp ótta í okkar heimshluta og fólk sem áður var ósnortið af ofbeldi og stríðsátökum, finnst líf þeirra ekki verða samt aftur.

Allir tímar eiga sinn ótta og og enginn tími er laus við ótta.
Þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk árið 1918 var Evrópa í sárum og ótal ótal höfðu misst lífið, skrifaði sænska skáldkonan Selma Lagerlöf skáldsöguna Bannfærð, sem lýsir á áhrifamikinn hátt baráttu ofbeldis og kærleika, ótta og trausts. Og höfundurinn spyr lesendur sína, högum við okkur eins og ofbeldið og dauðinn séu það heilaga og almáttuga í lífinu eða er eitthvað annað sem hægt er að byggja lífið á.

Selma skrifar um dauðann sem var samtíma hennar svo hugleikinn: “Dauðinn hefur fengið meira vald en nokkru sinni fyrr. Hann drottnar yfir okkur og kúgar okkur. Hann safnar uppskeru sinni með ákafa og hefur grimmd og ofbeldi í þjónustu sinni. Hann leysir úr læðingi siðleysi og misbeitingu. Minnsta smáatriði fer ekki framhjá honum hér á jörðinni og það virðist enginn endir vera á ríki hans. “

Þótt þessi orð séu skrifuð fyrir næstum hundrað árum síðan, hitta þau í mark og eiga ríkan samhljóm í okkar eigin samtíma, þegar svo margir þjást og líða vegna ofbeldis í heiminum.

Og Selma heldur áfram og segir: “Nú þegar við líðum undan harðstjórn Dauðans, spyrjum við okkur sjálf, er ekkert hér á jörðinni sem er nógu sterkt til að geta staðið í vegi fyrir honum?
Við vitum að hér á jörðinni er eitt afl sem sífellt berst gegn Dauðanum, það sem í sífellu stendur gegn valdi hans, og það afl er Lífið.”

Svo talar hún um lífið – ekki á þann hátt að það sé ópersónulegt og máttugt vald sem birtist á hvítum hesti og berst við Dauðann – heldur eins og það birtist í litlu hversdagslegu hlutunum sem við þekkjum öll. Kraftur lífsins felst í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur án þess að hugsa út í það, öllu því sem okkur finnst jafnvel ómerkilegt og lítils virði.

Dæmið sem hún tekur er um hversdagsmatinn, þetta sem við leggjum okkur til munns án þess að hafa neitt sérstakt umstang eða viðhöfn, og sem við leggjum ekki sérstaklega á minnið hvernig það leit út eða bragðaðist. “Lífið er ekki hátíðarstundirnar sem rata á málverk” segir Selma.

Þarna liggur krafturinn sem felst í lífinu, með því að hlúa að þessum hversdagshlutum og þeim sem þjóna þeim, þjónum við lífinu sjálfu. Svona var Selma Lagerlöf að pæla fyrir næstum hundrað árum síðan.

Norski rithöfundurinn Åsne Seierstad, sem skrifaði m.a. bókina Bóksalinn í Kabúl, tekur upp einmitt þetta með hversdaginn og hið hversdagslega andspænis óttanum við hryðjuverk, í grein sem hún skrifar í nýliðinni viku. Þar staldrar hún við val hryðjuverkamannanna í París á skotmarki sínu. Þeir völdu að láta ekki til skarar skríða í byggingum hins opinbera eða gera atlögu að lífi þeirra sem sitja við stjórnvölinn. Þeir reiddu til höggs þar sem fólk lifði sínu hversdagslífi, við mat og drykk og skemmtun, í hverfi sem er þekkt fyrir fjölbreytta menningu og samsettan íbúahóp.

Hryðjuverkamennirnir vissu að með því að ráðast á hversdaginn, yrði sársaukinn sem mestur. Með því að ráðast á hversdaginn lamast sjálf lífsæðin. Åsne Seierstad segir að samstaða og tengsl sé eitur í beinum hryðjuverkamannanna. Þátttaka og sýnileiki í hversdeginum sé þegar upp er staðið öflugra verkfæri gegn hryðjuverkum og þeim sem vinna þau, heldur en loftárásir og stigvaxandi ofbeldi.

Óttinn og viðbrögð okkar við dauðanum eru að vissu leyti íhugunarefni þessa síðasta sunnudags kirkjuársins, áður en aðventan gengur í garð. Biblíutextarnir nota myndmál dómsins og dómsdagsins sem ramma utan um vangaveltur um dauðann, lífið og endalok manneskjunnar. Þeir sýna okkur að meðvitundin um eigin dauðleika og hverfulleika hlutanna, hefur verið manneskjunni uppspretta hugsana og tjáningar alla tíð. Og svarið þar er líka hversdagurinn, lífið sem varðveitist og eflist í því að fá að “fá hvíld og gleðjast yfir degi sínum” eins og segir í Jobstexta dagsins. Í því felst að stíga frá dauðanum til lífsins eins og guðspjallið hvetur okkur til.

Mjög þekkt tjáning þessarar hugsunar er sagan um eplatréð hans Lúthers. Marteinn Lúther á að hafa svarað spurningunni um hvað hann myndi gera í dag ef hann vissi að allt yrði búið á morgun, með því að segjast ætla að gróðursetja eplatré í garðinum sínum. Eplatréð er hversdagurinn, Eplatréð er hversdagsmaturinn, sem þjónar lífinu, eflir tengsl og samstöðu.

Þetta er nestið okkar í dag – höldum fast í litlu hlutina og hversdaginn okkar, að tala saman, hlúa að fólkinu í kringum okkur, minnast þeirra sem þjást og líða, biðja fyrir heiminum okkar. Lyfta upp hversdeginum í þakklæti og kærleika, svo lífið styrkist og dafni. Það er svarið við óttanum á öllum tímum.