Næmni er engin væmni 9.-15. nóvember

by Nov 10, 2015Blogg, Sunnudagurinn

Vikuna 9.-15.nóv. verður sérstök átaksvika í Laugarneskirkju, sem ber yfirskriftina Næmni er engin væmni, sem snýr sér í lagi að ungu karlmönnunum í samfélaginu okkar, mikilvægi þess að fólk tali saman og þögnin sé svipt því valdi sem hún getur tekið í lífinu.

Áherslan er tvíþætt; annars vegar sú að við megum öll vera allskonar, megum vera óörugg, megum vera áttavillt, megum vera það sem við erum, meðan við erum það. Hinsvegar er áherslan sú að við megum ekki láta þögnina gleypa okkur, við þurfum að finna leiðir til að tjá okkur, á þann hátt sem okkur líður vel með.

Maður er nefnilega ekki þögla sterka týpan ef maður er í raun þögla beyglaða týpan.
Öll eigum við rétt á að vera og líða vel í eigin skinni, gangast við okkur eins og við erum og rækta með okkur hugrekkið til þess að deila því frjáls með heiminum.

Viðburðir vikunnar eru sem hér segir:

Miðvikudagskvöldið 11.nóv. kl.19:30 heldur Laugarneskirkja í samstarfi við Geðhjálp Útmeða fræðslukvöld í Laugarneskirkju.

Linda Hólm, sálfræðingur hjá Geðhjálp, flytur fyrirlestur í tengslum við Útmeða átakið (www.utmeda.is) þar sem hún tekur til umfjöllunar sjálfsvíg, orsakir þeirra, forvarnir og úrræði.

Með Lindu verður maður sem mun deila persónulegri reynslu sinni af því að hafa reynt að svipta sig lífi.

Kaffi og te í boði, allir velkomnir.

Sunnudaginn 15. nóvember kl. 11 er þemaguðsþjónusta út frá orðum Jesú í guðspjallinu Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin. Sérstök áhersla er áfram lögð á líðan og aðstæður karla og stráka, og mikilvægi góðra tengsla. Raddbandafélagið flytur tónlist og leiðir söng og Viðar Stefánsson guðfræðingur prédikar.

Að lokinni guðsþjónustunni munu Breytendur á Adrenalíni taka á móti dóti, fötum, skókössum og öðru tilfallandi sem hentar í verkefnið Jól í skókassa (http://kfum.is/skokassar/) og munu Breytendur taka að sér að búa til úr efniviðnum marga glæsilega skókassana sem munu rata í framhaldinu í góðar hendur. Á sama tíma verða Breytendur á Adrenalíni með vöfflusölu í safnaðarheimilinu, en allur ágóði mun renna í ferðasjóð hópsins.

Á sunnudagskvöldinu, kl.20, verður viðburðurinn Besti Búningsklefinn – #égerekkitabú þar sem áherslan verður lögð á tónlist og íþróttir.

Fram koma GKR og Besta Hljómsveit Heims II – Neon og ræðumenn verða þeir Alexander Kostic, fótboltamaður og Kristján Ágúst Kjartansson, framkvæmdastjóri ÆSKR.

Það eru allir velkomnir að íhuga þessi mál með okkur og taka þátt í viðburðum vikunnar.