Sigra illt með góðu

by Nov 16, 2015Blogg

Ég hef gjarnan ákveðna hluti í huga þegar ég skrifa prédikun. Ég veit að sjálfur vil ég helst ekki heyra í kirkju það sem gjarnan ber á góma í fjölmiðlum eins og t.d. pólitík, voðaverk eða slys, að ég tali nú ekki um fjármál. Nóg er af þeirri umræðu utan veggja kirkjunnar og því tel ég að fólk vilji heyra eitthvað annað. Ég vil helst heyra eitthvað fallegt, mögulega skemmtilegt og kannski eitthvað fyndið inn á milli án þess þó að lagt sé mikið upp úr því. Ég vil heyra eitthvað uppörvandi, ég vil heyra eitthvað huggandi og ég vil heyra að Guð sé mér, syndugum manni, náðugur. Ég vil heyra eitthvað sem styrkir trú mína og á sama tíma eitthvað sem leiðir mig til trúarlegs þroska. Nú þarf ég hins vegar að tala um ofbeldi, að sjálfsögðu í tengslum við átak hér í Laugarneskirkju þessa viku um ofbeldi, og þá sér í lagi gagnvart körlum og strákum, en ekki síður vegna voðaverkanna í París síðastliðið föstudagskvöld og alla þá umræðu sem skapast hefur í kringum þá atburði. Því ég veit að í dag er hugur okkar hjá þeim sem líða vegna ofbeldis af sérhverju tagi.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin skilgreindi árið 2004 hvað ofbeldi sé, þ.e.a.s. það sem kallast á ensku “violence”: ,,Ofbeldi er viljandi notkun krafts eða valds, hótuð eða raunveruleg, gegn sjálfum sér, öðrum einstaklingi, hópi eða samfélagi, sem leiðir til eða líklega leiðir til meiðsla, dauða, sálfræðilegs skaða, vanþroska eða sviptingar”. Út frá þessu er svo sannarlega margt sem getur flokkast sem ofbeldi, hvort sem notuð eru orð, hugsanir, hnefar eða vopn.
Ég eins og svo margir aðrir er á Facebook en það var einmitt þar sem ég frétti af voðaverkunum í París. Það hefur verið ákaflega gott og hughreystandi að sjá hversu margir hafa sýnt frönsku þjóðinni stuðning, hvort sem er á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum, t.d. með því að setja inn myndir af góðum bænarefnum eða samúðaróskum og að breyta prófílmynd sinni á þann veg að franski fáninn sé nokkurn veginn litaður yfir hana. Allt er þetta gert til að sýna Frökkum stuðning. Maður finnur líka að þetta er ekki gert til að fá sem flest “like”, annars myndi það missa marks.

Eins og ég sagði þá sá ég fréttina af þessum voðaverkum og smellti á hana til að lesa meira. Þar las ég að árásir hefðu verið gerðar á nokkrum stöðum í París og tugir manna væru látnir og margir særðir. T.d. sprakk sprengja nærri þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France, þar sem vináttulandsleikur Frakka og Þjóðverja í knattspyrnu fór fram, heyrðist m.a.s. spreningin mjög vel í sjónvarpsútsendingunni. Þegar ég hafði lesið fréttina, gerði ég það sem ég geri yfirleitt aldrei, því það er ekkert fyrir mig og ég fæ lítið sem ekkert út úr því. Þ.e. að lesa ummæli eða comment-in undir fréttinni.

Vissulega er tjáninga- og skoðanafrelsi hér á landi og allt í góðu með það í sjálfu sér en það hlýtur hins vegar að gera þá kröfu til þeirra sem þar skrifa að spyrja sig hvað eigi við hverju sinni og gott er að minna á að orðum fylgir ábyrgð, ekki síður á internetinu. Mörg ummælin tjáðu vissulega samúð og að kærleikurinn ynni bug á hatrinu. Það er svo sannarlega í góðu lagi og rétt að tjá slíkt þegar þvílík voðaverk eiga sér stað.

En svo var annað þar að finna. Þar mátti lesa ýmislegt sem auðveldlega er hægt að setja spurningamerki við, það sem mér fannst vægast sagt ósmekklegt, jafnvel fjandsamlegt í ljósi liðinna atburða og margt sagt í kaldhæðni; ,,Plís, enga mosku”, ,,Þetta er það sem víðsýnin kemur til leiðar”, ,,Þetta fjölmenningarsamfélag virkar greinilega mjög vel” ,,Haldið þið ennþá að það sé rétt að taka á móti flóttamönnum?” ,,Islam er eins og krabbamein”, o.s.frv.. Eins og hægt sé að segja að ISIS = Islam, í sjálfu sér gætum við þess vegna sagt að spænski rannsóknarrétturinn = kristni í dag. Slík umræða er örugglega ekki bundin við Ísland og það er heldur ekki langt síðan Charlie Hebdo árásin var. Ímyndið ykkur hvað það gæti verið erfitt að vera múslimi í Frakklandi núna.

Óumflýjanlega snerist svo umræðan á þessum kommentakerfum að hugmyndafræði, trúmálum og skoðunum annarra í þeim efnum sem því miður leiðir gjarnan til þess að málefnaleg umræða hverfur og fólk fer að hjóla í hvort annað með illkvittnislegum ummælum. Eitt dæmi er alveg nóg: ,,Díses Kræst, ég vil ráðleggja þér að kaupa þér skóflu og grafa þig ofan í jörðina sem fyrst”. Þetta er ofbeldi, ofbeldi sem sprottið er af ofbeldi.

Því miður eru voðaverkin í París aðeins smápartur af voðaverkum, slysum og dauðsföllum í heiminum. Síðasta fimmtudag létust a.m.k. 43 í tveimur sjálfsmorðssprengjuárásum í Líbanon og yfir 200 særðust. Hvað ætli flóttamennirnir séu að flýja? Eru það ekki einmitt voðaverk heimafyrir? Ég las fyrir skömmu að á árunum 2004-2013 létust tæplega 320.000 einstaklingar bara í Bandaríkjunum af völdum skotvopna. Hvað búa aftur margir á Íslandi? Hvað ætli það séu margir sem framið hafa sjálfsmorð út af einelti eða kommentum á netinu? Hvað ætli það séu margir drepnir vegna þess að þeir eru á einhvern hátt öðruvísi? Það er vissulega mikið af hræðilegum hlutum í heiminum því ofbeldi hefur margar birtingarmyndir.

Ég hef mikið hugsað undanfarið um vers í Rómverjabréfinu sem ég valdi sem mitt fermingarvers: ,,Lát ekki hið illa sigra þig, en sigra þú illt með góðu”. Hatur má ekki ala af sér hatur, hatur sigrar ekki hatrið, einungis kærleikurinn gerir það. Skuggi hverfur ekki nema með tilkomu ljóssins. Við erum kölluð sem kristnir einstaklingar til að vera kyndilberar ljóssins og boðberar kærleikans. Stundum getur það vissulega reynst erfitt, sérstaklega þegar við stöndum andspænis hörmulegum slysum eða tilgangslausum og nöturlegum voðaverkum.

En Jesús segir: ,,Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld”. Ófáir hafa leitað sér huggunar í þessum orðum Jesú og það skulum við líka gera. Guð skilur mannlega tilveru, hann veit að við mæðumst í mörgu, hann gleðst með hinum glöðu, hann grætur með grátendum og tendrar ljós í hjörtum hinna vonlausu. Við skulum minnast og biðja fyrir þeim sem eiga um sárt að binda vegna ofbeldis af sérherju tagi, biðja fyrir friði í heiminum og biðja Guð um að gefa okkur hugrekki og styrk til að koma náunga okkar til hjálpar. Í Jesú nafni, amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.