Gamlársdagur kl. 16 – tónlist frá kl. 15.50

Laugarneskirkja

Það eru mikil tímamót þegar gamla árið kveður og nýtt gengur í garð. Alls konar tilfinningar gera vart við sig, ljúfar og sárar og allt þar á milli. Sumum finnst gott að hefja hátíðahöldin með því að koma til guðsþjónustu og njóta samveru og fagurra tóna.

Í Laugarneskirkju verður guðsþjónusta kl. 16 á gamlársdag – en 10 mínutum fyrr flytja orgel og blásarar hátíðartónlist. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir sóknarprestur þjónar ásamt messuþjónum en hugvekja í léttum dúr verður í höndum Þorsteins Guðmundssonar. Þorsteinn er þjóðkunnur leikari og uppistandari og er löngu kominn tími á að hann fái að prédika yfir þjóðinni….

Arngerður María Árnadóttir leiðir tónlist og söng ásamt kór Laugarneskirkju. Á undan guðsþjónustunni leika Stella María Roloff (píanó), Noah Declan Roloff (trompet) og Thorsten Alexander Roloff (básúna).

Í pistli dagsins í Rómverjabréfinu standa þessi hughreystandi orð sem gott er að hafa við hjartað um áramótin:

Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.